139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[15:23]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kvað við gamalkunnan tón í síðustu orðum hv. ræðumanns þegar allt í einu var farið að draga upp þá mynd að leysa yrði Icesave til að leysa vanda atvinnulausra. Það mátti skilja orð hennar þannig. Það á sem sagt að draga upp þá grýlu. Ef við leysum ekki Icesave mun atvinnuleysi aukast.

Hvað hefur ræst af þeim grýlum og þeim hættum sem hv. þingmaður eða stjórnarþingmenn og aðrir töluðu svo mikið um í þinginu? Ég spyr hv. þingmann. Hvað hefur ræst af þeim hrakspám sem stjórnarþingmenn spáðu að hér yrðu ef þetta yrði ekki samþykkt? Erum við orðin Kúba norðursins? Hefur orðið hér ísöld o.s.frv.? Hver er áhættan? Hvar liggur áhættan af þessum nýja samningi? Mig langar að spyrja hv. þingmann að því. Hvar liggur áhættan? Liggur hún hjá Bretum og Hollendingum, eða liggur hún hjá Íslendingum? Hvað getur áhættan orðið mest að mati hv. þingmanns? Þetta eru spurningar sem við verðum að spyrja okkur.

En auðvitað er lykilspurningin þessi: Ber okkur að greiða þetta? Okkur ber að sjálfsögðu ekki að gera það. Svo virðist sem hér sé að skapast stemning í þinginu, hugsanlega nýr meiri hluti fyrir því að taka á sig þessar byrðar, að leggja auknar byrðar á þjóðina til þess að — ég veit ekki hvernig á að orða það — ganga í augun á alþjóðasamfélaginu eins og mér fannst hv. þingmaður koma inn á í ræðu sinni.

Það væri ánægjulegt að fá svör við þeim spurningum sem ég ber fram.

Ég var hugsi þegar hv. þingmaður fjallaði um kæru og hótun ESA. Ég veit ekki betur en að í fylgigögnum með þessu máli sé lýst efasemdum og það jafnvel hrakið að ESA geti staðið á slíku máli. Það verður forvitnilegt að vita hvers vegna óttinn er svona mikill við ESA.

Ég óska eftir svörum við þeim spurningum sem ég hef borið fram.