139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:00]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var snotur hagfræðiritgerð hjá hv. þingmanni en eins og svo margar þeirra álitsgreina sem nefndin aflaði sér er hún byggð á röngum forsendum. Það hefur meira að segja margt breyst frá því að þau álit komu fram sem hv. þingmaður byggir greiningu sína á.

Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að þegar upp verður staðið verða endurheimturnar umfram 100% af forgangskröfum. Það geta menn séð og þurfa ekki að kafa djúpt í eignasafn bankans til að skilja hvar liggja þær duldu eignir sem ekki hafa að fullu verið virtar. (Gripið fram í.) Látum það vera.

Hv. þingmaður sagði að svo mikil áhætta væri fólgin í þessum samningi að hann treysti sér ekki til að samþykkja hann. Mér finnst það úr öllum takti við það sem hv. þingmaður sagði á ýmsum stöðum í ræðu sinni. Hann sagði t.d. að alveg óumdeilanlegt væri að þessi samningur væri miklum mun hagfelldari fyrir Ísland en hinir fyrri. Hann sagði sömuleiðis að framganga samninganefndarinnar fyrir hönd Íslands hefði verið til fyrirmyndar. Hann segir að hvað samninginn sjálfan varðar megi gera ráð fyrir því að ekki væri hægt að komast lengra þótt reynt væri.

Að síðustu, frú forseti, hef ég fullan skilning á og samúð með þeirri aðferð sem hv. þingmaður vill nota til að fjármagna kostnaðinn en líka í því efni birtir hann í nefndaráliti sínu sitt eigið mat á því hvað kynni að vera líklegt að við þyrftum að greiða. Hann segir að ef þessu verði velt með þeim hætti sem hann leggur til yfir á bankana séu það bara smáupphæðir.

Hann segir sjálfur, með leyfi forseta:

„Upphæðirnar sem um er að ræða ef tekið er mið af áætlunum samninganefndarinnar eru heldur ekki hærri en svo að fyrirtæki í þessum geira munar tiltölulega lítið um þær greiðslur …“

Miðað við hans eigin dóm á áhættunni sem í þessu felst tel ég rökfræðilega útilokað að hv. þingmaður haldi því fram að áhættan af samningnum sé svo mikil að ekki sé hægt að taka hana. Mér finnst þetta birta einbeittan ágreiningsvilja í málinu (Forseti hringir.) hjá hv. þingmanni og það er ólíkt honum.