139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:04]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður er hagfræðingur. Ef hann heldur því fram að það muni ekki skipta svo miklu máli fyrir fyrirtækin af því að þau eigi að greiða upphæðina á löngum tíma hlýtur hann að gera sér grein fyrir því að hagfræðin kann alls konar leiðir fyrir ríkið sömuleiðis til að dreifa slíkum greiðslum á lengra tímabil. Með sömu rökfærslu mun það ekki heldur hafa mikil áhrif á ríkið. Það er samt önnur saga.

Ég er að mörgu leyti sammála ýmsu sem hv. þingmaður sagði. Mig langar til að spyrja hann: Ef fjármögnunarleiðin sem hann leggur til verður samþykkt, mun þá Hreyfingin breyta um afstöðu?

Sömuleiðis finnst mér eftirtektarvert að hann segir að einn samningamanna fyrir Ísland, Lee C. Buchheit, hafi sagt að persónulega telji hann að Ísland eigi ekki að greiða Icesave. Ég ætla ekki að bera brigður á að hann hafi sagt það en ég ætla samt að lesa upp úr Fréttablaðinu frá 11. desember 2010 þar sem Lee Buchheit segir:

„Í mínum huga voru þetta aðstæður sem kölluðu á samninga en ekki dómsmál. Fyrir því eru nokkrar ástæður. Sú fyrsta er að dómsmál geta tapast og tap í þessu máli hefði skelfilegar afleiðingar. Mótaðilinn gæti þá kallað eftir innheimtu allrar upphæðarinnar í einu og jafnvel haldið því fram að endurgreiðslan ætti ekki einungis að ná til lágmarkstryggingar innstæðna, heldur allra innstæðna.“

Er það ekki áhætta, frú forseti? Hvað segir hv. þingmaður um það?