139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:06]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Ég vil byrja á því að koma með fjórar athugasemdir eða spurningar. Hann segir í nefndaráliti, með leyfi frú forseta:

„Eftir stendur að þáverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar undir forustu Geirs H. Haardes skuldbatt sig til að greiða það sem bresk og hollensk stjórnvöld lögðu út vegna Icesave-reikninganna.“

Í fyrsta lagi: Hvar skuldbatt ríkisstjórnin sig til þess? Það er ekkert sem getur skuldbundið ríkissjóð nema fjárlög eða fjáraukalög.

Í öðru lagi segir hann hér: „á þeim tíma verður að gera ráð fyrir að sú ákvörðun hafi verið tekin undir þrýstingi og ekki að vel athuguðu máli“.

Var þetta ekki greinilega undir þrýstingi? Ber það vott um þjóðhollustu að segja svona og rétta Bretum og Hollendingum vopn upp í hendurnar? Ákvörðunin var tekin undir gífurlegum þrýstingi, ekki spurning um það.

Svo talar hv. þingmaður um að aukinn vaxtakostnaður ríkissjóðs vegna fyrirséðra lántaka geti leitt til skattahækkana og frekari niðurskurðar en hann gleymir brottflutningnum sem er að mínu mati ein stærsta áhættan, þ.e. þegar skattstofninn fer til útlanda en eftir situr kostnaður í bótum og slíku.

Síðan segir hann í fjórða lagi að eignir þrotabúsins séu að mestu í íslenskum krónum. Þetta eru einungis 8% (Gripið fram í.) þannig að það er mjög lítill hluti í íslenskum krónum. Þetta hefur því lítil áhrif á gengið.

Í fimmta lagi talar hann um að þetta séu góðir efnahagslegir fyrirvarar. Ég er ekki sammála því. Ég tel nefnilega að það sé miklu hættulegra ef hagvöxtur verður neikvæður eða brottflutningurinn mjög mikill. Þá er mjög hættulegt að þurfa alltaf að borga ákveðinn hluta af tekjum ríkissjóðs í síminnkandi hagkerfi. Það getur verið stórhættulegt.