139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:17]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Nú getur verið að hv. þingmanni sé ókunnugt um hvað fór manna á milli í framhaldi þessara funda allra en þegar segir í undirskrifuðu samkomulagi að nefnd eigi í sameiningu að taka ákvarðanir um mál þá á hún að taka þær í sameiningu.

Það var haldinn fundur, að mig minnir 16. desember, með fimm fulltrúum úr fjárlaganefnd þar sem komu fram fjórar mismunandi skoðanir á því með hvaða hætti eða hvort funda ætti í jólahléi þingsins. Það var ekkert um það að ræða að þetta væri einhver einn þingmaður, það voru fjórar mismunandi skoðanir uppi. Engu að síður kaus hv. formaður fjárlaganefndar að boða til funda í nefndinni í jólahléi.

Það stendur í undirskrifuðu samkomulagi að nefndin eigi að taka ákvarðanir í sameiningu. Í sameiningu þýðir einfaldlega í sameiningu. Við hefðum aldrei gengist undir það samkomulag að öðrum kosti og menn eiga að standa við það sem þeir skrifa undir.