139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:49]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni og félaga mínum í fjárlaganefnd, Þór Saari, fyrir andsvarið.

Hv. þingmaður talar um algjöra uppgjöf Sjálfstæðisflokksins. Því fer víðs fjarri. Kúvending í málinu, segir hv. þingmaður. Ég tel að af fullri sanngirni höfum við — hv. þingmaður kom reyndar inn á það í andsvari sínu að hann hefði lesið nefndarálitið sem honum fannst eftir því sem ég skildi ágætlega unnið — reynt að draga fram alla óvissuþætti, hvort sem þeir snúa að þeirri áhættu sem hv. þingmaður vísar í sem leggst á okkur eftir þennan samning eða því hvað gæti gerst ef samningnum yrði hafnað og við færum svokallaða dómstólaleið.

Við í Sjálfstæðisflokknum höfum alla tíð, alveg frá upphafi máls — það er hægt að lesa það í öllum nefndarálitum allra þessara mála, Icesave 1, 2 og núna 3 — talað fyrir því að leita pólitískra lausna. Við höfum hins vegar aldrei viljað fallast á þá afarkosti sem hingað til hafa verið í boði. Þegar menn, eins og ég kom inn á í ræðu minni, lögðu fyrir þingið 490 milljarða skuldbindingu þá er það, eins og kemur fram í nefndaráliti okkar, nánast sama tala og ef við færum með málið fyrir dómstóla og töpuðum því algjörlega. Það var málflutningur okkar sjálfstæðismanna að ef við mundum ekki láta reyna á dómstólaleiðina væri enginn mismunur á þessu tvennu.

Ég vil segja við hv. þingmann í algjörri einlægni: Okkar mat, eftir að hafa farið í málið eins og hv. þingmaður hefur líka gert í fjárlaganefnd, er að af tveimur slæmum kostum sé þessi skárri. Ég tek hins vegar undir með hv. þingmanni að það er mjög mikilvægt að menn fari ekki í einhverjar skattahækkanir og þar fram eftir götunum til að ná tökum á þessu. Nú verða menn að dæla súrefni inn í atvinnulífið (Forseti hringir.) til þess að forðast einmitt það sem hv. þingmaður er að vara við.