139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:52]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Ég er ekki sáttur enn.

Vissulega er það rétt að Sjálfstæðisflokkurinn og fleiri hafa ætíð talað fyrir því að æskilegt sé að ná pólitískri lausn í þessu máli, en hún má ekki kosta hvað sem er. Sú staðreynd að ekki sé ólíklegt að niðurstaðan verði sú að kostnaðurinn vegna Icesave verði 233 milljarðar ef illa fer er gríðarleg áhætta. Enginn svarar þeirri einföldu spurningu í þessum álitum, nema GAMMA sem leiðir aðeins hugann að því: Hvaðan eiga þeir peningar að koma sem eiga að fara í að borga þetta? Hvernig á að borga þetta?

Það er ekkert mál að efna til skulda, en einhvern tímann þarf að borga þær. Miðað við stöðu þjóðarbúsins tekur Sjálfstæðisflokkurinn einfaldlega undir stórfelldar skattahækkanir eða stórfelldan niðurskurð með ríkisstjórninni.

Því langar mig að spyrja hv. þingmann, vegna þess að staðan er sú að þetta verður ekki greitt með öðrum hætti: Finnst honum ekki rétt að þessu máli verði vísað til þjóðarinnar í framhaldinu frekar en að þingið taki eingöngu ákvörðun um það? Því að á endanum, ef allt fer sem horfir, mun almenningur greiða þetta með einhverjum hætti og það verður þungur baggi.