139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[17:41]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn líka. Nú erum við að klára Icesave-málið. Baráttan hefur verið löng og ströng og erfið. Allt það sem fram fór á Alþingi og hefur gengið á má einfaldlega aldrei gerast aftur að mínu mati. Leynd gagna, skoðanakúgun og flokksræði er nokkuð sem ég er reiðubúinn til að berjast fyrir að við sjáum ekki hérna í framtíðinni. Það sem ég hef samt mestar áhyggjur af er að lagasetning á Alþingi er að mínu mati óvönduð. Kannski er það að hafa ætlað sér að samþykkja Icesave óséð versta dæmi Íslandssögunnar í þeim efnum. Stjórnlagaþingið var dæmt ógilt af dómstólum vegna þess að lagasetningu á Alþingi er ábótavant. Það er mitt mat. Við eigum að taka okkur meiri tíma, við eigum óhikað að kalla til sérfræðinga, fá mismunandi álit, greina alla þætti og anda með nefinu.

Ég ætla heldur ekki að fara út í ummæli stjórnarliða sem mörg hver voru vond og illa ígrunduð. Ég held að það sé málinu ekki til framdráttar. Ég hef reynt að fara málefnalega yfir afstöðu mína (Gripið fram í.) og reynt að rökstyðja af hverju ég er ekki reiðubúinn að samþykkja þetta samkomulag. Ég tel að við eigum að láta reyna á dómstólana og er ósammála því mati, þar á meðal Sjálfstæðisflokksins, að (Forseti hringir.) áhættan af því að fara með málið fyrir dóm sé svo mikil.