139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[18:02]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna, hún var ágæt svo langt sem hún náði. Nú er það þannig að hv. þm. Björn Valur Gíslason hefur verið ákafur stuðningsmaður allra samkomulaga sem gerð hafa verið um Icesave. Hann stóð sérstaklega í brúnni þegar verið var að ræða um fyrsta samkomulagið og vildi endilega samþykkja það strax án nokkurra breytinga. Hann stóð líka að því að samþykkja það frumvarp sem varð að lögum með þeim efnahagslegu og lagalegu fyrirvörum sem Alþingi náði fram með stuðningi hugrakkra þingmanna í Vinstri grænum. Ég samdi nú reyndar þá efnahagslegu fyrirvara að einhverju leyti, og hann stóð að því. Síðan stóð hann að nýju samkomulagi og nýjum lögum sem samþykkt voru 30. desember sl. og kosta, eins og sýnir sig, 170 milljörðum meira en það samkomulag sem við stöndum hér frammi fyrir.

Nú langar mig til að spyrja hv. þingmann: Hvernig getur hann horft framan í kjósendur sína með þessa forsögu á bakinu? Nú er komið samkomulag sem er engu að síður gallað en kostar þó 170 milljörðum minna en hv. þingmaður samþykkti um síðustu áramót og þjóðin felldi eftir að forsetinn hafði bjargað henni úr snörunni. Hvernig getur hv. þingmaður horft framan í kjósendur sína eftir alla þessa forsögu?