139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[18:28]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég hafði gaman af að hlusta á hana í ljósi þess sem áður hefur verið sagt og þeirra stóru orða sem hafa fallið. Og það var svolítið sérstakt þegar þingmaðurinn nefndi að mikilvægt hefði verið að fá fulltrúa úr slitastjórn til að fara yfir eignir þrotabúsins. Ég veit ekki betur en minni hlutinn hafi barist fyrir þessu í tvö ár og talið mikilvægt, þetta væri hluti af því að meta áhættuna á bak við samningana. Á bls. 4 í áliti meiri hlutans segir, með leyfi forseta:

„Við mat á því hvort samþykkja eigi það lagafrumvarp sem hér um ræðir er nauðsynlegt að meta áhættuna af því að ganga ekki til samninga og þá áhættu sem er í því fólgin að Ísland bíði lægri hlut í dómsmáli.“

Síðan kemur 1/3 úr blaðsíðu þar sem meiri hlutinn rökstyður mál sitt.

Þegar maður skoðar gögnin á bak við það að meta áhættuna finnur maður bara álit frá fjórum lögspekingum sem eru ósammála um þetta atriði. Þeir segja í 6–7 línum eitthvað á þá leið að málið gæti tapast, sem mundi að öllum líkindum setja Ísland í verri samningsstöðu en nú er, og gæti leitt til óhagstæðari niðurstöðu. Þeir benda á að ef málið mundi vinnast mundu þeir greiða. Er þingmaðurinn ekki sammála mér um að það hefði verið heillavænlegast að fá ítarlegra (Forseti hringir.) mat á þessum veigamiklu þáttum?