139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[18:35]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Hann tók m.a. fram að hann hefði verið upptekinn af því að meta áhættuna af því samkomulagi sem er til umræðu og láta afstöðu sína til ríkisábyrgðar fyrir samkomulaginu ráðast m.a. af því hvernig sú áhætta blasti við honum.

Í máli hans kom jafnframt fram að e.t.v. hefðu, við fyrri umræðu málsins, pólitísk átök á milli flokka ráðið of miklu um afstöðu einstakra manna. Mig langar að bera upp við hv. þingmann, í ljósi þess að hann telur þá áhættu sem er í þessu samkomulagi ásættanlega, hvað honum finnist í dag um áhættuna sem var í fyrra samkomulaginu sem hann studdi. Telur hann að hann hafi e.t.v. blindast af pólitískum átökum þegar það mál var afgreitt í þinginu? Hvernig hefur tíminn hjálpað hv. þingmanni að meta það sem þar gerðist? Það kemur engum á óvart að þeir sem treystu sér til að styðja þann samning meti áhættuna af því samkomulagi sem hér er til umfjöllunar ásættanlega.