139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[18:39]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég skil vel að þeir sem stóðu að fyrra samkomulagi vilji draga fram í dagsljósið að óvissa sé um hversu mikið hafi sparast eða hversu mikið hafi tapast á því að hafa ekki gengið frá málinu fyrr. Hér segir hv. þingmaður: Það hefur tapast svo mikið að óvíst er hvort mikill munur sé á Icesave 2 og Icesave 3, eins og hann nefnir síðustu tvo samninga.

Hér er frumvarpið. Þar kemur fram að heildargreiðslur samkvæmt eldra samkomulagi hefðu getað orðið 238 milljarðar en samkvæmt því samkomulagi sem hér er verið að ræða 67. Til frádráttar báðum þessum tölum koma 20 milljarðar sem eru í innstæðutryggingarsjóðnum. Samkvæmt frumvarpinu sjálfu er munurinn á heildargreiðslunum 170 milljarðar. Ætla menn virkilega að halda áfram að koma hingað upp og tala þannig að það sé ávinningur sem hafi tapast vegna tafarinnar?