139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[18:45]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef í ræðum mínum reynt að vera talsmaður atvinnulífs og verður svo áfram. Þriðja leiðin í efnahagsendurreisninni er mikilvæg. Það þarf að koma inn öflugum hagvexti og erlendu fjárstreymi til eflingar íslensku atvinnulífi. Það mun verða leiðin sem varnar því að við þurfum að skera meira niður í velferðarkerfinu sem komið er að þolmörkum.

Flokkurinn sem sá sem hér stendur tilheyrir hefur verið í viðræðum við aðila í atvinnulífinu, orkugeiranum og fleiri. Þeir eru á einu máli, þar á meðal fulltrúar Landsvirkjunar sem sátu fund með okkur í dag, að úrlausn Icesave-málsins væri atvinnulífinu til framdráttar. Fulltrúi Samtaka atvinnulífsins sem sat fund með okkur í dag talaði um að fjárhagsvandi íslenskra fyrirtækja væri ekki meiri en svo að fjárfestingarþol þeirra væri (Forseti hringir.) meira en haldið væri (Forseti hringir.) og beðið væri eftir þessu atriði sem (Forseti hringir.) hér er til umfjöllunar. Eftir það færi meira af stað en menn héldu.