139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[19:12]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Staða okkar hefur verið sterk vegna þess að við komum auga á það strax á fyrstu dögum þessarar deilu að það væri ekki skýrt með hina lagalegu skyldu okkar til að veita ríkisábyrgð fyrir innstæðunum. Eftir því sem stundir hafa liðið fram og fleiri komið að því að skoða þá hlið málsins hefur allur þingheimur sannfærst í þeirri skoðun að slíkri lagaskyldu sé ekki til að dreifa. Á því byggist sá árangur sem náðst hefur og birtist okkur í þessu samkomulagi, hann byggist á sterkri stöðu okkar.

Við vorum hins vegar veik fyrir á haustmánuðum 2008, þurftum á aðstoð að halda, og þess vegna var hörmulegt að verða vitni að aðgerðum Breta með beitingu hryðjuverkalaganna. Það var líka dapurlegt, og ég mótmælti því á sínum tíma á Norðurlandaráðsþingi, að sjá ekki samstöðu með Íslandi frá Norðurlöndunum. (Forseti hringir.) En staða okkar í málinu til þess að knýja fram sanngjarnan samning (Forseti hringir.) hefur verið sterk frá upphafi (Forseti hringir.) og í því birtist sá mikli munur sem er á þessu samkomulagi og því fyrra.