139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[19:14]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Þessari spurningu er mjög vandsvarað og það verður að meta eftir aðstæðum hverju sinni. Það kann að hljóma eins og dæmigert pólitískt svar en það er staðreynd málsins. Eftir því sem lagalega staðan er sterkari í svona viðræðum, þeim mun betri niðurstöðu er hægt að ná fram. Ég vil nefna eitt í þessu sambandi sem skiptir miklu: Á fyrri stigum sagði ég ávallt: Ég treysti mér til að fara með málið fyrir dómstóla. Hvers vegna? Vegna þess að niðurstaðan sem lá á borðinu var eins og við hefðum tapað málinu að fullu fyrir dómstólum. Ég var ekki tilbúinn til að taka á mig 500 milljarða áhættu til þess að losna við 150–200 milljarða áhættu af því að fá dóm um að við hefðum brotið á Bretum og Hollendingum með því að skilja þá eftir með innstæður sínar ófullnægðar.

En mér finnst að hv. þingmaður geti kannski svarað því fyrir sitt leyti fyrst hann hefur áhuga á þessu viðfangsefni, (Forseti hringir.) fyrst að hann tók þátt í viðræðunum: Hvar lágu sársaukamörkin að hans mati (Forseti hringir.) hvað þetta snertir?