139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[19:15]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Vilji hv. þm. Bjarni Benediktsson krefja mig svara getur hann farið í andsvar við mig á eftir. En nú er ég að spyrja hv. þingmann hvar hans mat hafi legið. Hann getur ekki svarað því enda liggur ekkert slíkt mat fyrir. Fulltrúi Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd lagði reyndar til að slíkt mat yrði gert og þá hefði Sjálfstæðisflokkurinn haft aðstöðu til að setja verðmiða á réttlætið og getað metið það út frá þeirri upphæð.

Ég átta mig hins vegar ekki á því í hverju kostnaðurinn liggur að mati hv. þingmanns vegna þess að eins og samningurinn er núna og hv. þingmaður hefur sjálfur bent á er verið að borga Bretum og Hollendingum allt upp í topp, allar kröfur þeirra með vöxtum þannig að vextirnir nægja til þess að standa straum af kostnaði þeirra við að hafa greitt þetta út.

Ég vil að lokum spyrja út í klausu í lok álits fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd þar sem kemur fram að einn mesti áhættuþátturinn í þessu öllu sé ríkisstjórnin, efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar: Er Sjálfstæðisflokkurinn sem sagt farinn að trúa því að þar verði veruleg breyting á eða er hann kannski að komast í aðstöðu til að hafa áhrif (Forseti hringir.) þar á?