139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[19:19]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Lögfræðiálitin sem hv. þingmaður vísar til segja okkur einmitt að það er ekki á vísan að róa fyrir dómstólum. Hér er sagt að ég sé með hræðsluáróður. Hvenær í ræðu minni birtist einhver hræðsluáróður? Aldrei nokkurn tímann. Ég fjallaði einfaldlega um það að hér hef ég fyrir mitt leyti lagt ískalt mat á það hvað er skynsamlegt, rétt og ábyrgt að gera í málinu og þetta er niðurstaða mín. Mér er hins vegar spurn fyrst ég á hér orðastað við þingmann Framsóknarflokksins: Hvað hefur Framsóknarflokkurinn verið að meina þegar hann hefur ítrekað, aftur og aftur, kallað eftir samstarfi flokkanna í viðræðum við Breta og Hollendinga? (Gripið fram í.) Ef það er afstaða Framsóknarflokksins að það komi aldrei til greina að semja við Breta og Hollendinga, til hvers þá að vera að ræða við þá? (SDG: Af hverju svarar þú ekki spurningunni?)

(Forseti (ÁI): Þögn í salnum.)