139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[19:25]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg skelfilegt að hlusta á formann Sjálfstæðisflokksins halda þessu fram vitandi það, og formaðurinn veit það að sjálfsögðu sjálfur manna best, hverjir hafa leitt þessa umræðu í þinginu til að berjast fyrir bættum samningi fyrir Íslands hönd. Var það ekki Framsóknarflokkurinn? Voru það ekki þingmenn Framsóknarflokksins sem voru ekki tilbúnir til að semja um Icesave fyrir ekki svo mörgum mánuðum þegar Sjálfstæðisflokkurinn virtist vera tilbúinn til að gefa upp öndina og selja allt sem hægt var að selja til að ná þessum samningi? Var það ekki þannig þegar við stóðum hér fyrir jólin 2009? (Gripið fram í: Ha?)

Mig langar að spyrja hv. þingmann um eitt enn, lykilatriði: Hvaða áhrif telur hv. þingmaður að Icesave-samningarnir geti haft á gjaldeyrishöftin á Íslandi? Ég veit að hv. þingmaður er mjög greindur maður og hefur pælt í þessum hlutum, mig langar að spyrja hann: Hvaða áhrif mun Icesave-samningurinn hafa á gjaldeyrishöftin? Mun hann hafa þau áhrif að þau þurfi að vera hér lengur, viðvarandi eða mun hann stytta þau? Og hvar liggur áhættan í samningnum, hvar liggur fjárhagslega áhættan sem sjálfstæðismenn virðast vera búnir að kokgleypa?