139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[19:46]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég sé ástæðu til að koma hér inn í umræðuna á þessu stigi þegar framsögumenn nefndarálita hafa tjáð sig og nokkrir fleiri talsmenn flokka. Ég vil byrja á að þakka fjárlaganefnd fyrir vel unnin og mikil störf í þessari þriðju atlögu að þessu máli sem Alþingi hefur, eins og kunnugt er, glímt við allt frá haustdögum 2008 og í löngum lotum á árinu 2009 og nú aftur um nokkurt skeið.

Ég vil í öðru lagi segja að ég hlýt að fagna þeirri ábyrgu afstöðu sem nefndarmenn og forustumenn Sjálfstæðisflokksins hafa tekið í þessu máli og fagna því mjög að þeir hyggjast styðja frumvarpið. Með því tel ég að Sjálfstæðisflokkurinn sýni að hann er sjálfum sér samkvæmur í afstöðu sinni til þessa máls og ekki síst formaður flokksins, og ég vitna til þess sem hann hafði hér fram að færa og þeirra raka sem hann flutti strax í umræðum um þetta mál í desember 2008. Þá var hann talsmaður sem formaður meiri hluta utanríkismálanefndar og færði þá fram rök fyrir því að vænlegasti kosturinn væri að reyna að leysa Icesave-málið með samningum og fór jafnframt yfir þá áhættu sem fólgin gæti verið í því að málið færi fyrir dómstóla.

Ég tel sömuleiðis að með þessu sýni Sjálfstæðisflokkurinn að full heilindi voru að baki þátttöku hans í þeirri samninganefnd sem færði okkur þá niðurstöðu að lokum sem hér er nú til umræðu. Upp í þann leiðangur var lagt í janúarmánuði 2010 og má segja að hann hafi komist á spor eftir nokkuð sögufræga ferð okkar þremenninga til höfuðborgar Hollands, Haag, þar sem í ljós kom hver yrði að vera grundvöllur þess ef enn ætti að reyna að taka upp samningaviðræður milli þjóðanna. Síðan tókst svo vel til að í góðri sátt var skipuð samninganefnd, menn komu sér saman um formann og stjórnarandstaðan átti sinn sérstaka fulltrúa í henni, Lárus Blöndal, sem á stóran þátt í því hversu vel tókst til og þeim trúnaði sem byggðist upp milli manna í ferlinu sem í hönd fór.

Í þessu ljósi er niðurstaða fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd, sem og formanns flokksins sem hér talaði áðan, í góðu samræmi við þennan bakgrunn málsins. Ég fagna því mjög og ég tel það lofsvert að Sjálfstæðisflokkurinn tekur með þessu mjög ábyrga og raunsæja afstöðu til þessa máls, að það standi að lokum, eins og það hefur alltaf gert, um val milli þeirra kosta sem í boði eru fyrir okkur til að komast frá þessu máli.

Það er alveg ljóst að staða Íslands var erfið haustið 2008, afar veik. Við vorum ekki í góðri stöðu til að greiða úr öllum þeim ósköpum sem á okkur dundu og þar þá meðal þessu máli sem kom eins og köld gusa yfir menn, þá sem ekki höfðu þá áttað sig á því áður að þarna gætu verið í uppsiglingu og í vændum miklar skuldbindingar eða mikil áhætta fyrir landið ef illa færi með starfsemi Landsbankans á erlendri grund.

Ég minnist októbermánaðar það ár þegar við forustumenn flokkanna hittumst daglega og hinn kaldi veruleiki dróst upp fyrir mönnum varðandi þær óhemjulegu fjárhæðir sem Landsbankinn hefði safnað inn á þessa reikninga og kynnu að vera með einum eða öðrum hætti á ábyrgð íslenska innlánstryggingarkerfisins þar sem um útibú íslensks banka var að ræða.

Í því ljósi verður að sjálfsögðu að skoða einstaka þætti þessa máls, hver staða landsins hefur verið á hverjum tíma. Það er alveg ljóst að hún var veik og hún var erfið haustmánuðina 2008. Landið stóð afar illa, hafði orðið fyrir miklu áfalli. Gjaldeyrisforði okkar var afar takmarkaður og það var að verða þröngt fyrir dyrum þegar fyrsta fyrirgreiðslan koma frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum undir lok nóvembermánaðar þess árs. Því hefur kannski ekki verið haldið mikið á lofti, enda ekki endilega ástæða til að útmála það, til hversu fárra vikna gjaldeyrisforðinn þá hefði dugað ef ekki hefðu borist einhverjar bjargir.

Því miður var það svo að staða landsins var áfram veik árið 2009. Þá verður einnig að skoða það sem íslensk stjórnvöld á þeim tíma voru að gera í því ljósi. Fyrstu hugmyndir um lausn þessa máls voru Íslandi afar óhagstæðar ofan í þær hörðu aðgerðir sem gripið hafði verið til gagnvart okkur, sérstaklega af hálfu Breta. Án þess að ég ætli að ýfa neitt upp með því minni ég á að hugmyndir voru á kreiki um að Ísland tækist á við þessa ábyrgð í heild sinni eins og hún legði sig með því að taka eitt stórt lán, og í tilviki Hollendinga var skrifað undir viljayfirlýsingu þar að lútandi, um að við ábyrgðumst gagnvart þeim endurgreiðslu á allri fjárhæðinni sem lágmarkstryggingarfjárhæðin hafði í för með sér í Hollandi til tíu ára á 6,7% vöxtum.

Ég hef séð skjöl um hugmyndir Breta um lausn þessa máls frá svipuðum tíma sem voru enn svakalegri, að þeir hafi haft þær hugmyndir að við ættum að endurgreiða þeim lán til tíu ára á 13,5% vöxtum. Svona voru hugmyndirnar sem uppi voru um þau kjör sem okkur ættu að bjóðast í þessu í byrjun. Ég held að við getum öll verið sammála um að þær voru ekki sanngjarnar eða glæsilegar.

Þegar samningar tókust í júníbyrjun 2009 var staðan að því leyti enn óbreytt að Ísland hafði ekki náð í gegn neinni endurskoðun á samstarfsáætlun við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn af þeim hinum sömu sökum að Icesave-málið var óleyst og við vorum og höfðum verið undir miklum þrýstingi um að klára það mál af hálfu viðsemjendanna en fleiri aðila jafnframt sem lýstu sig reiðubúna til að taka þátt í efnahagsáætlun með okkur og tryggja Íslandi aðgang að erlendum gjaldeyrislánum en tengdu það við það að lausn fyndist á þessu máli.

Þess vegna verður að hafa í huga að forsendur Íslands til að gera samninga voru þá aðrar en þær eru nú orðnar. Þær voru það m.a. vegna þess að á þeim tíma var alls ekki ljóst hvort Ísland mundi ráða við eða gæti tryggt sér alþjóðlega fyrirgreiðslu í formi erlendra gjaldeyrislána til að sjá fyrir afborgunum af lánum næstu missirin og valda þannig stöðu sína. Umræða um mögulegt greiðslufall Íslands var uppi, Ísland var ofarlega á lista yfir þær tíu þjóðir heimsins sem væru líklegastar til að fara í gjaldþrot, áhættuálagið á okkar skuldbindingar var upp undir þúsund punktar þannig að augljóslega var staðan ekki vænleg hvað það varðaði fyrir okkur að tryggja okkur fjármögnun á markaði eða annað slíkt til að lengja í erlendum lánum eða ráða við afborganir.

Engu að síður er það þannig að borið saman við fyrstu hugmyndir um lausn þessa máls var samningsniðurstaðan vorið 2009 til muna hagstæðari. Hún fól í sér langtímafjármögnun á skuldbindingunni. Þá var það mat manna að um slíkt yrði að semja af öryggisástæðum, einfaldlega vegna þess að landið var ekki í neinum færum til að ábyrgjast greiðslur á næstu árum, ekki einu sinni vexti, hvað þá afborganir, og af því leiddi sú niðurstaða að skynsamlegra væri að ná fram löngum lánstíma og föstum vöxtum. Það verður ekki bæði sleppt og haldið, menn geta ekki bæði keypt sér öryggi með slíku, að verja landið fyrir útgjöldum um árabil á meðan glímt sé við erfiðleikana, tryggja sér langtímafjármögnun en semja um það á skammtímakjörum. Þetta rifja ég upp til þess að biðja menn þess lengstra orða að þegar við förum yfir þetta mál og alla sögu þess látum við atburði hvers tíma njóta sannmælis í ljósi þeirra aðstæðna sem þá voru uppi.

Varðandi samanburð á fyrri samningahugmyndum og því sem nú er í boði deilum við ekki um það að þessi niðurstaða er okkur hagstæðari, hún er verulega hagstæðari, sérstaklega hvað vaxtakjörin snertir. Og hún er það m.a. vegna þess að nú erum við í aðstöðu til að semja á öðrum grunni en áður var. Nú getum við boðið samtímagreiðslu vaxta og margt fleira gerir það að verkum að niðurstaðan er hagfelldari hvað þetta snertir.

Þegar málið kom hér fram 2009 var byggt á mjög varfærnu mati. Það hygg ég að menn finni í gögnum þess máls ef þeir vilja leita. Það er sérstaklega tekið fram t.d. að áætlun um endurheimtur úr búinu væru mjög varfærnar, með öðrum orðum þá var ekki reynt að fegra myndina. Þá þegar voru margir þeirrar skoðunar og góðar vísbendingar uppi um það að það stefndi í hærri endurheimtur og hægt væri að gera ráð fyrir því með nokkuð sterkum rökum eða líkum að þær mundu að lokum verða talsvert hærri en þau 75% sem ákveðið var að miða við, og á það lagði ég sem flutningsmaður málsins áherslu að það yrði ekki fegrað enda hefði það ekki verið ábyrg framsetning mála. Þetta bið ég menn líka að hafa í huga þegar þeir taka útreikninga frá þeim tíma, byggða á þeim varfærnu forsendum sem lagðar voru til grundvallar matinu og bera það svo saman við niðurstöðuna núna.

Að sjálfsögðu er það rétt að fá má mjög háar tölur. Ef lágar endurheimtuhorfur eða lágt endurheimtuhlutfall er notað, ef notast er við veikara gengi krónunnar eins og þá var gert í útreikningum og ef notast er við hærri heildarskuldbindingu, eins og þá var reiknað með, en sem betur fer á endanum stefnir í. Það hefur komið í ljós að kröfurnar, hvorki í tilviki Bretlands né Hollands, verða nákvæmlega sú áætlaða hámarksfjárhæð sem menn studdust þá við í útreikningum sínum. Þannig reiknuðu menn með á sínum tíma að þetta gæti orðið 2.350 milljónir punda í tilviki Bretlands en það endar í 2.275, og 1.330 milljónir evra tæpar í tilviki Hollands en það endar í 1.322. Þetta og margt fleira verður að hafa í huga þegar þessi samanburður er gerður og þessir útreikningar allir saman. Ég sé því ekki að það sé neitt vandamál fyrir menn ef menn vilja að bera hinar ýmsu sviðsmyndir saman, bæði dökkar og ljósari, þá má leika sér lengi með það. Ég halla mér að því sem samninganefndin sjálf og sérfræðingar hennar, reiknimeistarar hennar, notuðust við þegar þetta var borið saman og menn höfðu til hliðsjónar í samningaviðræðunum núna á síðasta sprettinum undir árslok 2010, að það stefndi í mun upp á um 110 milljarða kr. á nýja samkomulaginu og hinu eldra, en með núvirðingu yrði munurinn augljóslega nokkuð minni. Þar metur Seðlabankinn það svo að nýi samningurinn, miðað við sambærilega núvirðisútreikninga í báðum tilvikum, feli í sér lækkun úr 133,6 milljörðum í 62,4 og jafngildir það þá lækkun upp á 71,2 milljarða kr.

Það eru verulega háar fjárhæðir, það er alveg rétt. Það er fullkomlega sanngjarnt að menn spyrji: Sýnir þetta ekki að menn hafi verið að gera mistök við gerð fyrri samninga og hvernig réttlæta menn það að þarna muni núvirt yfir 70 milljörðum kr.? Þá er því til að svara að samningarnir voru gerðir við ólíkar aðstæður, gengu út frá ólíkum hagsmunum að þessu leyti til sem staða Íslands bauð upp á eða kallaði á, og það var hægt að gera hluti núna undir lok árs 2010 vegna gjörbreyttrar og betri stöðu þjóðarbúsins sem ekki var hægt að gera vorið 2009.

Loks verður að sjálfsögðu ekki fram hjá því horft að töf á lausn þessa máls upp á um eitt og hálft ár eða rúmlega það hefur ekki verið án fórnarkostnaðar, það er ekki hægt að halda því fram með neinum gildum rökum. Það gleður mig að vísu mjög þegar menn segja að okkur hafi bara gengið býsna vel þrátt fyrir áhyggjur manna af öðru. Það er þá væntanlega til marks um að þeir eru ekki eins ósáttir við ástandið og stundum mætti ætla af ræðum þeirra. Mín sannfæring er sú, mitt mat er það, þó engin leið sé að reikna það út og hefur svo sem lítið upp á sig, að fram hjá því verði ekki horft að tafirnar að þessu leyti hafi valdið okkur vandræðum og ekki verið án kostnaðar.

Þar má til að mynda nefna þá staðreynd, sem ég held að verði ekki á móti mælt, að hið óleysta Icesave-mál seinkaði framvindu efnahagsáætlunarinnar samtals líklega að minnsta kosti um níu mánuði sem í mörgum tilvikum hefur þýtt að ýmsir hlutir sem því voru tengdir eru að sama skapi seinna á ferðinni. Það verður heldur ekki fram hjá því horft að umræða um þetta mál óleyst hefur átt þátt í því að skapa óvissu um framtíðarhorfur Íslands. Til marks um þetta eru umsagnir lánshæfismatsfyrirtækja sem mjög gjarnan vitna í þetta mál og þeir sem hafa átt samskipti við erlenda banka, fjárfestingarbanka og sjóði, hafa varla komist hjá því að heyra þetta sama. Við vitum af ákveðnum fjárfestingarverkefnum sem ekki hafa fengist fjármögnuð af þessum ástæðum og fleira mætti nefna.

Það er reyndar rétt að á margan hátt hefur tekist að halda hlutum betur gangandi en maður þorði að vona, og það viðurkenni ég fúslega að þetta hefur kannski, með mikilli vinnu að vísu, valdið minni vandræðum en maður hafði óttast. Það skýrist aðallega af tvennu að mínu mati, annars vegar því að ferlið til lausnar þessa máls hefur verið í gangi meira og minna allan tímann, þannig að á meðan svo hefur verið og við höfum endurtekið undirstrikað, bæði inn á við og út á við, áframhaldandi vilja okkar til að reyna að leysa þetta hefur það búið til visst skjól sem ekki hefði verið til staðar ef svo væri ekki, það er alveg ljóst. Það hefur að vísu tekið langan tíma en endurnýjaðar og áframhaldandi tilraunir til að leysa málið hafa skapað skilning á því að það væri þó í þeim farvegi.

Hitt er líka staðreynd að með mikilli vinnu hefur tekist að tryggja framvindu samstarfsins við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og áframhald efnahagsáætlunarinnar, fá fram endurskoðun á því samstarfi, fá til landsins lán til að byggja upp gjaldeyrisvaraforðann og það hefur smátt og smátt styrkt stöðu okkar og bætt horfur. Þegar þetta tvennt er haft í huga skýrir það á vissan hátt að okkur hefur á margan hátt þá gengið betur en ýmsir höfðu áhyggjur af að verða mundi og ég tel að hefði orðið ef þetta mál hefði ekki verið í einhvers konar lausnarfarvegi allan tímann og það svona róað ástandið.

Ég tel að mest tímamót hafi það markað þegar önnur endurskoðun samstarfsáætlunarinnar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn náðist í gegn í apríl 2010. Hún er ein af stærstu tímamótunum í efnahagslegri endurreisn Íslands og því að koma Íslandi í skjól og tryggja að við yrðum í færum til að ráða við allar okkar skuldbindingar og þyrftum ekki að hafa þær áhyggjur sem uppi voru fram undir það hvort landið réði við afborganir sínar af erlendum lánum o.s.frv.

Að lokum vil ég segja það, frú forseti, að ég er mjög bjartsýnn á það að með farsælli lausn þessa máls hér og nú verði stór áfangi tekinn í því að koma Íslandi áfram og að staða okkar muni fara batnandi í kjölfarið. Ég bind miklar vonir við það að þetta muni hafa jákvæð áhrif á lánshæfismat landsins, að þetta muni auðvelda okkur frekar en hitt að hefja markvissan undirbúning að afnámi eða skrefum í átt að afnámi gjaldeyrishafta og ekki síst bind ég vonir við það að þetta muni liðka verulega fyrir og opna okkur möguleika á að fara út á alþjóðlegan fjármálamarkað á nýjan leik, að leystu Icesave-máli ætti íslenska ríkið ekki að vera í miklum vandræðum með að fara að undirbúa innkomu sína á alþjóðlegan fjármálamarkað á nýjan leik og ryðja þar með brautina fyrir banka og aðra aðila, stór íslensk fyrirtæki, sveitarfélög og orkufyrirtæki og fleiri slíka aðila, þannig að við færum að koma inn úr kuldanum einnig hvað það snertir.

Ég vil, frú forseti, sérstaklega fagna því að þetta breið samstaða er að takast um afgreiðslu málsins.