139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[20:06]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra kom inn á það í ræðu sinni og færði fyrir því rök að staða okkar til að semja við Breta og Hollendinga hefði breyst á ýmsum sviðum og við ýmsar aðstæður. Ég ætla ekki í andsvari mínu að fara að deila við hann og setja þetta mál í það hefðbundna karp sem við lendum oft í hér. Mig langar hins vegar til að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort það hafi ekki einmitt verið það þegar við sýndum samstöðu innan veggja þingsins, þ.e. stjórnarandstaðan og stjórnarmeirihlutinn, og komum sameinuð að málinu sem hafi haft mikil úrslitaáhrif gagnvart Bretum og Hollendingum. Og enn fremur: Getur hæstv. ráðherra tekið undir það að þegar fyrirvararnir svokölluðu voru samþykktir hér í ágústmánuði 2009 hafi það verið ákveðin mistök að hafa einmitt ekki staðið saman um að fara og kynna fyrirvarana sameiginlega?

Mig langar líka til að spyrja hæstv. ráðherra, af því að hann kom inn á að þetta hjálpi til við endurreisnarstarfið sem það eflaust gerir að einhverju leyti. — Ég tel hins vegar að það hafi verið ofmetið. Mín skoðun er sú. Það hefur líka komið fram á fundum fjárlaganefndar hjá þeim aðilum sem töldu þetta vera eitt helsta vandamálið, að það hafi að þeirra mati verið ofmetið á fyrri stigum. — Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann geti tekið undir að það sé jafnvel enn mikilvægara og mun mikilvægara að leysa úr skuldastöðu einstaklinga og fyrirtækja við þær aðstæður sem nú eru uppi til að koma efnahagslífinu í gang aftur. Það er það sem við þurfum. Það er mjög mikilvægt að hleypa inn í það súrefni núna til að hagvöxtur fari að aukast.