139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[20:36]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir ágætisræðu. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um það sem kom fram í ræðu hans að þær hrakspár sem hafa verið í gangi hingað til hefðu reynst innihaldslausar og tek undir það að mestu ógnirnar séu sennilega þær yfirlýsingar um þjóðnýtingu og skattahækkanir sem hann vitnaði hér í, við erum algjörlega sammála um það.

Hv. þingmaður sagði jafnframt að þetta mál hefði ekki verið rætt með rökum hingað til. Því þótti mér mjög dapurlegt þegar hv. þingmaður fór í tvígang með rangt mál, það er mjög dapurlegt. Það er eins og hv. þingmaður, sem er búinn að kynna sér þetta mál mikið, viti samt ekki um þær stærðir sem menn eiga nú að vita eftir alla þessa umfjöllun. Í fyrsta lagi fullyrðir hv. þingmaður að Lee Buchheit hefði sagt að lagaleg staða Íslands væri sterk. Ég vil bara minna á að Lee Buchheit kom fyrir fjárlaganefnd 2009. Hver voru skilaboðin frá Lee Buchheit? Þau voru mjög einföld og margrædd í þinginu. Þið skuluð ganga til samninga um lágmarkstryggingu en passa ykkur á einu: Ekki ganga frá samkomulagi um greiðslur fyrr en þið vitið meira um heimtur og niðurstöðu þrotabúsins. Þannig voru skilaboðin.

Síðan segir hv. þingmaður að helsta eign þrotabúsins sé ákveðin verslunarkeðja, Iceland í Bretlandi, sem vitnað er til. Það er líka alrangt. Stærsta eign þrotabúsins er skuldabréf sem fór úr nýja bankanum yfir í gamla bankann. Það vill svo til að eftir að lögin voru sett gengur þetta skuldabréf framar innstæðum. Það hefur forgang á innstæður. Það er langstærsta eignin. Ég bið því hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson þegar hann óskar eftir umræðum (Forseti hringir.) með rökum en ekki einhverjum sleggjudómum að gera slíkt hið sama sjálfur.