139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[20:38]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Andsvar hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar er dálítið lýsandi fyrir þá stöðu sem Sjálfstæðisflokkurinn er allt í einu lentur í í þessu máli. Til að reyna að rökræða við mig eða leiðrétta mig þá býr þingmaðurinn bara til eitthvað sem hann heldur fram að ég hafi sagt. Hvorugt þeirra atriða sem hann nefndi er að finna í ræðunni. Ég skal lána hv. þingmanni græna blaðið mitt þegar það kemur hingað með ræðunni útskrifaðri.

Í fyrsta lagi er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði, ég var ekki á þessum fundi 2009 en ég hef heyrt viðhorf Lees Buchheits, sem kom einmitt að því með okkur að undirbúa samningaviðræðurnar í upphafi og marka umboðið, að það ætti að nýta eignir þrotabúsins til þess að endurgreiða höfuðstólinn. Út á það gekk þetta akkúrat, en líka að menn þyrftu að bíða og sjá betur hverjar heimturnar yrðu. Við vitum það ekki enn þá almennilega. Jú, menn hafa hugmynd um það miðað við núverandi aðstæður. Það er akkúrat málið. Við erum ekki komin með fullgildar upplýsingar til að geta skrifað undir óútfylltan tékka í nafni íslensks almennings.

Hitt varðandi verslunarkeðjuna Icesave. Ég sagði ekki að hún væri stærsta eign … (Gripið fram í: Iceland …) Iceland, já, afsakið. Ég sagði ekki að hún væri stærsta eign þrotabúsins. Ég nefndi hana sem dæmi um eignir í þrotabúinu og hversu miklar sveiflurnar eru vegna þess að verslunarkeðjan hefði verið metin á nánast ekki neitt en væri núna metin á yfir 200 milljarða, sem gæti reyndar fært hana fram fyrir skuldabréfið sem hv. þingmaður nefndi miðað við nýjasta matið á henni. Það hefði þannig getað verið rétt þegar ég sagði að Iceland væri stærsta eignin.

En hvað varðar þetta skuldabréf frá Nýja Landsbankanum til hins gamla þá er það áhyggjuefni í sjálfu sér. Ég skil ekki af hverju hv. þingmaður nefnir það sem mikinn kost. Hver borgar það skuldabréf? Hvernig dreifir það áhættunni? Skuldabréfið borga Íslendingar.