139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[20:40]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom ekki fram í andsvari mínu að ég nefndi þetta sem einhvern sérstaklega góðan kost. Ég var bara að benda hv. þingmanni á að þetta væri stærsta eign gamla þrotabúsins.

Hvað varðar það sem Lee Buchheit hefur haldið fram þá kom það mjög vel í ljós, eins og ég sagði áðan. Hann sagði okkur að fara þessa leið, það væri best. Síðan getur vel verið, eins og hv. þingmaður segir, að menn hafi lagt upp með annað þegar þeir fóru í þessa vegferð. En þetta eru þau skilaboð sem Lee Buchheit kom með til fjárlaganefndar. Það er hans mat af þeirri miklu reynslu sem hann hefur sem alþjóðasamningamaður.

Það sem hv. þingmaður sagði líka var að stór hluti eigna þrotabús Landsbankans hefði verið áhættufjárfesting. Sem betur fer er ekki svo. Allir sem voru í hv. fjárlaganefnd fengu góða yfirferð yfir hvernig eignasafnið er uppbyggt og mjög greinargóða lýsingu á því. Þannig að ég tel eftir það sem var farið yfir á þeim fundi að búið sé að taka til í þrotabúinu og það sé í raun og veru það sem skilanefndin og slitastjórnin eru að gera. Þær ofmeta ekki eignirnar.

Síðan segir hv. þingmaður líka að færum við dómstólaleiðina sem sé þá hinn valkosturinn — ég virði alveg þá skoðun hjá öðrum ef þeir vilja fara hana, en þeir þurfa ekkert að rakka aðra niður þó þeir komist að annarri niðurstöðu — þá sé kostnaðurinn svipaður og af þessari leið. Það er ekki rétt. Ef dómstólaleiðin er farin og málið tapast er miðað við að við þurfum að borga 20.887 evrur og 5,55% vexti, af því að þá á eftir að fjármagna skuldbindinguna, þá er það kostnaður upp á 171 milljarð. Því er ekki saman að jafna. Við verðum að ræða þetta með rökum og bera virðingu fyrir skoðunum hver annars, en ekki vera með sleggjudóma og fullyrðingar eins og komu fram hjá hv. þingmönnum Framsóknarflokksins gagnvart hv. þm. Bjarna Benediktssyni (Forseti hringir.) um að eitthvað annað lægi að baki en sú (Forseti hringir.) sannfæring að menn hefðu lagt vinnu í málið og komist að þessari niðurstöðu.