139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[20:45]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er maður friðarins og það er með hálfum huga að ég hætti mér inn í þessa kúlnahríð sem gengur nú á millum stjórnarandstöðuflokkanna. Ég þakka hv. þingmanni og formanni Framsóknarflokksins fyrir alveg prýðilega ræðu. Ég verð þó að viðurkenna fyrir honum að engu síður en þegar ég hlýddi á ræðu talsmanns flokksins fyrr í dag er ég ekki alveg viss um afstöðu Framsóknarflokksins til þessarar tillögu. Nú mátti skilja mál hv. þingmanns þannig að hann væri henni andstæður og teldi ekki nógu mikið að gert. Ég veit það ekki og ég ætla ekki að spyrja hann um það. Ég ætla að gefa honum tíma og ráðrúm til að velta fyrir sér hver verður hin endanlega niðurstaða Framsóknarflokksins. Hann þarf ekkert að svara því núna, ég geri ekki kröfu til þess. Það hefur komið fram í máli hv. þingmanns að því lengur sem flokkar bíða með að móta afstöðu í þessu máli, þeim mun líklegra er að niðurstaðan verði þokkaleg.

Ég kem hingað út af orðum hv. þingmanns um Lee Buchheit. Hann túlkaði hér orð Lees Buchheits með ákveðnum hætti og ég geri engar athugasemdir við það. Ég vil hins vegar gera það algjörlega ljóst hvað það er sem Lee Buchheit hefur sagt um samninga eða dómsmál. Lee Buchheit sagði í Fréttablaðinu 11. desember 2010, með leyfi forseta:

„Í mínum huga voru þetta aðstæður sem kölluðu á samninga en ekki dómsmál. Fyrir því eru nokkrar ástæður. Sú fyrsta er að dómsmál geta tapast og tap í þessu máli hefði skelfilegar afleiðingar. Mótaðilinn gæti þá kallað eftir innheimtu allrar upphæðarinnar í einu og jafnvel haldið því fram að endurgreiðslan ætti ekki einungis að ná til lágmarkstryggingar innstæðna, heldur allra innstæðna.“ (Forseti hringir.)

Frú forseti. Þetta var í boði Lees Buchheits, þess manns sem Framsóknarflokkurinn hefur dásamað mest í þessari (Forseti hringir.) umræðu, verðskuldað.