139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[22:08]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að aðild okkar sjálfstæðismanna að þessu máli er mikil. Bæði stjórnuðum við landinu meðan söfnun var á þessa innlánsreikninga, þessa ólukkans Icesave-reikninga, auk þess sem við stóðum að fyrstu tilrauninni til að leysa þetta mál við Hollendinga og Breta og síðan höfum við verið í stjórnarandstöðu og látið mjög svo til okkar taka í þessu ferli öllu saman.

Aðild okkar að þessum nýjasta samningi er kannski meiri en margir vita. Við höfum lagt okkur alla fram um að sem bestir samningar næðust. Þess vegna er rökrétt núna þegar fyrir liggja samningar sem hljóða upp á upphæðir sem sennilega er ekki hægt að lækka í frekari samningum að við segjum já við þessu máli. Við höfum verið fylgjandi samningaleiðinni og því að leysa úr málinu á praktískan hátt og því er eðlilegt að við endum þetta ferli með því að segja já eftir að samningur liggur fyrir sem hægt er að sætta sig við.

Fyrsti vísir að samningi getum við sagt að sé minnisblað sem fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins skrifaði undir við Breta og Hollendinga í október 2008. Það var að vísu aldrei farið út í samninga sem byggðu á grunni þess minnisblaðs en ef samningur hefði aftur á móti verið gerður á þeim nótum sem þar var um fjallað er ljóst að skuldbindingin sem við hefðum tekið á okkur hefði verið í kringum 180 milljarða kr.

Tveim eða þrem dögum eftir að fjármálaráðherra kom heim með þetta minnisblað af fundi með fyrrnefndum ríkjum hringdi forsætisráðherra Íslands í forsætisráðherra Hollands og sagði að aldrei gæti orðið af samningi á þessum nótum. Síðar um haustið byrjaði samningaferli sem stóð allt þar til skipt var hér um ríkisstjórn vorið 2009. Þá var skipt um samninganefnd og svokölluð Svavarsnefnd tók við kyndlinum. Sú nefnd tók sér einhverja mánuði í að semja við Hollendinga og Breta um þessar útistandandi ábyrgðir sem Bretar og Hollendingar töldu að Íslendingar bæru ábyrgð á. Því ferli lauk með svokölluðum Svavarssamningum og þeir samningar hljóðuðu upp á að Íslendingar væru tilbúnir til að greiða Hollendingum og Bretum 489,9 milljarða kr. á tímabilinu 2016–2024 með hugsanlegri framlengingu.

Ég man vel eftir því þegar sá sem hér stendur fékk pata af því um hvað var að ræða í þeim samningum og ég man alveg eftir því áfalli sem ég varð fyrir þegar ég uppgötvaði hvaða upphæðir hafði verið skrifað undir og hvað þessi samninganefnd sem Svavar stýrði hafði algjörlega misskilið málið og algjörlega samið af sér, raunverulega verið plötuð. Upp úr þessu hófst mikil barátta sem tók á sig þann brag að nokkrir þingmenn úr stjórnarliðinu tóku sig út og komu með það sem var kallað efnahagslegir fyrirvarar í samvinnu við stjórnarandstöðuna. Síðan var sá samningur samþykktur og við vitum nokkurn veginn restina, þetta endaði allt saman með þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem eiginlega allir sem tóku þátt í henni höfnuðu þeim samningi.

Ekki mörgum dögum eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna hófust þreifingar milli flokka um hvernig hægt væri að standa að þessu máli. Menn komust niður á sameiginlegan grunn og afraksturinn af því er sá samningur sem við höfum hérna sem hljóðar upp á að Íslendingar undirgangist það að greiða Hollendingum og Bretum nettó um 47 milljarða kr.

Það er margvísleg áhætta í þessum samningum. Sú mesta er að mínu viti sú að ekki takist að innheimta allt eignasafn Landsbankans. Það gæti þess vegna gerst eitthvað í hinum stóra heimi þannig að skuldunautar þrotabús Landsbankans geti ekki staðið í skilum eins og áætlað er og það muni leiða til þess að lélegri heimtur verði í þrotabúið. Það gæti líka jafnvel gerst eitthvað á Íslandi þannig að nýi Landsbankinn gæti ekki staðið í skilum með skuldabréf við gamla Landsbankann og þar af leiðandi félli meira á ríkið beint. En ég tel hverfandi líkur á að það gerist.

Varðandi endurheimturnar hafa reyndar komið fréttir undanfarnar vikur, svo sem að Iceland-verslanakeðjan í Bretlandi sé metin mun meira en hún er metin á bókum skilanefndarinnar. Það kemur til lækkunar á þessum 47 milljörðum. Þá er það að keðjan Iceland Group virðist vera mun verðmætari en menn gerðu ráð fyrir. Það kemur til lækkunar á þessum 47 milljörðum. Síðan er safn skulda upp á eitthvað í kringum 90 milljarða sem er metið í bókum nýja Landsbankans á 10 milljarða, menn telja að það sé hægt að fá allt að 50–60 milljarða fyrir það safn. Ágóðinn af því skiptist á milli gamla og nýja Landsbankans og nettóáhrifin er ég ekki með á takteinum en það liggur fyrir að það lækkar þessa 47 milljarða skuld.

Aftur á móti hafa engar fréttir komið af því að þessi skuld gæti hækkað. Það hefur ekkert óvænt komið upp í eignasafninu þannig að menn telji það verðminna en talið hefur verið til þessa. Auk þess er þó nokkur hluti af eignasafninu þegar til í beinhörðum peningum sem á bara eftir að greiða út til kröfuhafa þegar þar að kemur og þá m.a. innstæðutryggingarsjóðsins sem getur þá staðið í skilum við Breta og Hollendinga og lækkað þar af leiðandi skuldbindingu okkar Íslendinga, þ.e. ef við samþykkjum þessa samninga verður það að skuldbindingu en það er ekki orðið það fyrr.

Menn hafa talað um að þetta geti haft mikil áhrif á gjaldmiðilinn, að þetta geti seinkað afnámi gjaldeyrishaftanna og annað slíkt. Um það vil ég segja að skuldbindingin sem er í innstæðutryggingarsjóðnum, ef þetta verður samþykkt, er í kringum 700 milljarðar kr. Menn hafa þá lofað að greiða til Breta og Hollendinga í erlendum gjaldmiðli í kringum 700 milljarða kr. Það er ljóst að ef við þyrftum að vinna okkur inn íslenskar krónur og skipta þeim yfir í erlenda gjaldmiðla yrði gríðarlega mikill þrýstingur á gengið á næstu árum meðan á því stæði. En það vill bara þannig til að eignasafnið er í erlendum gjaldmiðli líka þannig að nettóáhrifin eru ekki nein nema sem nemur muninum á skuldbindingunni og eignunum, sem sagt því sem fellur á þann samning sem hér er til umræðu, 47 milljarðar.

Þá segja menn: Tefur þetta ekki að hægt verði að afnema gjaldeyrishöftin um einhver ósköp? Upphæðin sem þessi samningur leggur á innstæðutryggingarsjóðinn er 67 milljarðar. 20 milljarðar eru til þar inni þannig að nettó eru þetta 47 milljarðar. Það liggur fyrir að ef þetta frumvarp verður að lögum og þessi samningur verður gerður verða 26 milljarðar af þessum 67 milljörðum greiddir eftir tvær til þrjár vikur. (VigH: Gjaldeyrisvaraforðinn.) Álag á gjaldmiðilinn upp á 40 milljarða fram til 2016 er ekki neitt. Það þarf engar áhyggjur að hafa af því að þetta leiði til seinkunar á því að gjaldeyrishöftin verði afnumin, það þarf engar áhyggjur að hafa af því.

Ég hef heyrt tölur í ræðum og þar er vitnað til nefndarálits hv. þm. Þórs Saaris þar sem talað er um hættu á að um 200 milljarðar falli á íslenska ríkið. Í fyrsta lagi, ef það er rétt, þyrfti ég að endurskoða það sem ég hef sagt um að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af gjaldeyrishöftum og því hvernig gjaldmiðlarnir munu hreyfast. En eftir að hafa sagt það á ég mjög erfitt með að sjá fyrir mér þá stöðu að þessi upphæð verði 200 milljarðar, ég á bara mjög erfitt með að sjá það. Ég trúi því sjálfur að við munum nettó ekki borga neitt, að eignir Landsbankans muni dekka þessa 47 milljarða og jafnvel meira þannig að við fáum jafnvel nokkrar krónur upp í leiðindin hérna í framtíðinni.

Aftur á móti er þetta það sem ég trúi. Það er hægt að hafa svartsýnni trú á þessu máli en til þess, nákvæmlega eins og ég gat um áðan, þarf ansi mikið að gerast. Það er ekkert í spilunum sem bendir til þess að það geti farið svo illa að við þurfum að borga 200 milljarða. Ef svo er höfum við þá efnahagslegu fyrirvara þarna inni að þetta verði aldrei nema visst hámark af ríkisútgjöldum sem verði greidd o.s.frv.

Ef við förum yfir þessa áhættuþætti hef ég ekki miklar áhyggjur af þeim. Vægast sagt hef ég það litlar áhyggjur af því að ég er tilbúinn til að segja já. Það er samt ekkert auðvelt að segja já, langt því frá. Þetta mál er þannig vaxið að fyrir stjórnmálamann er freistandi að nota þetta til þess að gera ríkisstjórninni enn erfiðara fyrir, það er freisting falin í því. En nákvæmlega eins og formaður Sjálfstæðisflokksins sagði í ræðu fyrr í dag búum við við þann munað í Sjálfstæðisflokksins að geta hafið okkur yfir slíkar freistingar þegar mikið liggur við. Og í þessu máli liggur mikið við. Það liggur mikið við að þetta mál verði klárað. Hér hefst ekkert eitt allsherjarpartí þegar búið verður að skrifa undir þennan samning og flæða inn peningar og við upplifum einhverja gósentíma, alls ekki, það verður ekkert þannig. Mér er til efs að við munum sjá miklar breytingar fyrstu mánuðina á eftir.

Aftur á móti verður að segja að það verður mun auðveldara að fara út á alþjóðlegan lánsfjármarkað, bæði fyrir fyrirtækin og fyrir ríkið. Það eitt og sér minnkar áhættuna af samningnum vegna þess að það er hægt að fjármagna hann upp á nýtt ef eitthvað skyldi koma upp.

En það er erfitt að segja já af öðrum ástæðum. Það ríkir ekki einhugur um þetta mál í þeim stjórnmálaflokki sem ég tilheyri, alls ekki. Eins og hv. formaður Sjálfstæðisflokksins greindi mjög vel frá í dag er hægt að líta á þetta mál á tvo vegu, annars vegar sem prinsippmál og hins vegar sem praktískt mál sem þarf að leysa. Fyrir okkur að segja já núna er nálgunin að þetta sé praktískt mál sem þurfi að leysa og við komumst ekkert undan því.

Aftur á móti væri hægt að leyfa sér þann munað að vitna í það að okkur ber ekki lagaleg skylda til að samþykkja þessa skuldbindingu. Það fælist í því stolt að geta sagt: Nei, við látum ekki troða á okkur á einn eða neinn hátt. Út frá praktísku sjónarmiði mundi sú ákvörðun aftur á móti þýða að við hefðum þetta hangandi yfir okkur í tvö til þrjú ár í viðbót. Það yrði erfiðara með fjármögnun á alþjóðlegum mörkuðum. Við mundum alveg lifa af og hér yrði ekki kjarnorkuvetur eins og þeir fóstbræður mínir gömlu úr háskólanum héldu fram, að við breyttumst í Kúbu norðursins eða Norður-Kóreu norðursins eða hvað það var sem þeir félagar sögðu. Aftur á móti verður mun auðveldara að reka íslenska hagkerfið eftir að þetta mál verður frá. Þess vegna segjum við með þjóðarhagsmuni í huga, þrátt fyrir það sem ég sagði áðan, að það væri freistandi að klekkja á ríkisstjórn sem við viljum losna við sem fyrst með því að segja nei og kynda upp undir málinu. Það væri mikill munaður að geta staðið við prinsippafstöðu og sagt: Við látum ekki þvinga okkur til eins eða neins, við erum stolt þjóð. En ég tel að ábatinn af því að segja já sé meiri en sú fró sem fælist í því að segja nei.

Síðan er ein áhætta sem ég hef ekki fjallað um hér og það er áhætta sem við verðum svolítið að taka út fyrir sviga. Aftur á móti er rétt að minnast á hana og gera grein fyrir henni. Sú áhætta er hegðun ríkisstjórnarinnar sem nú er við völd í atvinnumálum, í því hvernig t.d. er talað til erlendra fjárfesta og annað slíkt, þetta skapar áhættu í sjálfu sér. Ef ríkisstjórnin lætur ekki af þessari hegðun, þ.e. að tala blygðunarlaust um að þjóðnýta erlendar fjárfestingar og annað slíkt, er ljóst að það eitt og sér getur skapað efnahagsleg vandamál sem leiða til erfiðleika við að standa við þessar skuldbindingar. Það er ekki hægt að taka tillit til þess þegar maður er að ákveða hvort maður á að segja já eða nei en aftur á móti verður maður að gera grein fyrir því og það er mjög mikilvægt að ríkisstjórnin skilji það og snúi af þeirri braut sem hún hefur verið á í atvinnumálum. Núna er enn meiri ástæða til að standa sig en áður eftir að ef þetta verður samþykkt hér.