139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[22:34]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hélt því alls ekki fram að ég væri einhver sérfræðingur í eignasafni Landsbankans. Ég veit ýmislegt um það, ég veit að það er ýmislegt inni í því og ég veit hvernig forgangur virkar í því og hvernig t.d. heildsöluinnlánin eru og annað slíkt. En ekki vita allir þingmann hvernig þetta virkar, eins og við sáum t.d. í Morgunblaðinu í morgun.

Þess vegna segi ég að þingmenn hafi ekki faglega þekkingu á þessum eignum og hvernig eigi að meta þær. Ég get eiginlega ekki verið að stæla við þingmanninn um hvort eignirnar séu góðar eða slæmar. Ég nefndi þrjú dæmi, og tvö af þeim eru opinberar upplýsingar, sem benda til að alla vega þeir hlutar eignasafnsins séu mun betri en áætlað var.