139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[22:35]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta ræðu og fyrir málefnalega afstöðu í málinu. Ég sagði við umræðurnar fyrr í dag að á ögurstundum í lífi þjóðar skipti það gríðarlega miklu að stjórnmálamenn hefji sig yfir pólitískt dægurþras og tækifærismennsku. Að þingmenn í stjórnarandstöðu skuli axla ábyrgð á erfiðu máli eins og hér er er satt að segja til fyrirmyndar enda mikilvægt að leysa úr því. Vissulega er áhætta í því fólgin en hún verður þó aldrei meiri, eins og hv. þingmaður benti á, en 1,3% af landsframleiðslu í versta falli. Ég hygg nú að flestar þjóðir í kringum okkur verji hærri fjárhæðum til hernaðarmála. Þó að það yrði þungbært væri það sannarlega eitthvað sem við gætum ráðið við.

Ég er sammála hv. þingmanni um að þetta setji ekki afnám gjaldeyrishaftanna í hættu og hverfandi líkur á að það hafi áhrif á hvenær takist að aflétta þeim. Ég gladdist að heyra trú þingmannsins á að endurheimturnar yrðu svo góðar að samningarnir mundu ekki kosta okkur 47 milljarða heldur ekki neitt vegna þess að árangurinn yrði betri en hér er gert ráð fyrir.

Hv. þingmaður tilfærði af kunnáttusemi ýmsa þætti sem gætu orðið hagfelldari okkur og skilað betri niðurstöðu og hjálpað til við að gera þetta að núlli eins og þingmaðurinn trúir að þetta geti orðið. Það fannst mér ákaflega gott í umræðunni. Ég vildi inna hv. þingmann eftir því hvort hann sæi fleiri jákvæð teikn sem gætu hjálpað til við að lækka þennan reikning frá því sem áætlað hefur verið, um 47 milljarða, og þá alla leið niður í núll eins og þingmaðurinn nefndi.