139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[22:45]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Skildi ég þingmanninn rétt að hann telji að við komum ekki til með að borga neitt eða gætum hugsanlega ekki þurft að borga neitt með vöxtum? Ég hef skilið það þannig að vextirnir sem við þurfum að greiða séu einfaldlega eitthvað sem við fáum ekki aftur og skiptir þá engu máli hverjar heimtur í þrotabúinu verða.

Ég man eftir ræðum hv. þingmanns í janúar þar sem hann fór ítarlega yfir þetta. Ég hef farið ítarlega yfir þetta og spurði þingmanninn um lagalega hlutann. Ég vil eingöngu fá svar hans um lagalega hlutann vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn byggir afstöðu sína á því að fyrir liggi mat á áhættu — þeir meta það þannig — án þess að svo sé í gögnum málsins, fyrir utan þessar sjö línur sem ég vísaði í. Á hverju byggir þingmaðurinn eða þingflokkur sjálfstæðismanna (Forseti hringir.) mat sitt á því að of áhættusamt sé að (Forseti hringir.) höfða mál um skuldbindingargildi Icesave-samninganna?