139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[22:48]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði í dag er hálfkaldhæðnislegt að við þurfum að standa hér og ræða Icesave þar sem búið var að halda þjóðaratkvæðagreiðslu. Þjóðin felldi það samkomulag, þá skuldbindingu sem ríkisstjórnin er að reyna að koma á herðar skattgreiðendum. Það varð til þess að farið var af stað á ný og fyrir liggur nýr samningur, það skal reynt og það skal reynt. Það minnir mig á ákveðið lýðræði í ákveðnu sambandi sem við þekkjum svo vel, það skal bara kosið aftur og aftur til að rétt niðurstaða fáist.

Þar sem málið er komið aftur inn á borð okkar er rétt að fara aðeins yfir staðreyndir. Ég varð svo hugsi yfir þessu öllu í morgun þegar það kom í ljós að Sjálfstæðisflokkurinn hefur tekið þá ákvörðun að vera með á þessu máli, hann ætlar að gefa öll sín grænu atkvæði með hinum nýju samningum. Þá fór ég að hugsa: Hvar liggur ákvörðunarvaldið á Alþingi? Hver er það raunverulega sem tekur ákvarðanirnar? Hvernig getur heill stjórnmálaflokkur gengið á bak allra sinna orða sem sögð voru í umræðum síðustu tvö ár með tveimur lagasetningum og snúist svona, sérstaklega í ljósi þess að formaður Sjálfstæðisflokksins lagði áherslu á það eins og þingmenn Framsóknarflokksins að það er engin lagaleg skylda til þess að standa við þessa skuldbindingu, þessa gerviskuldbindingu? Það finnst ekkert um það, hvorki í Evrópureglum né íslenskum lögum, að okkur beri að greiða þessa upphæð.

Það sem einnig hefur verið bent á er að þessi svokallaði endurgreiðslusamningur — það er komið nýtt nafn á hann — er viðurkenning á því að við skuldum Bretum og Hollendingum þær upphæðir sem um er fjallað. Þar sem það hafði ekki verið viðurkennt áður þykir mér mjög einkennilegt að það sé gert nú. Ég sakna þess að formaður Sjálfstæðisflokksins skuli ekki vera hér til andsvara en hann gat ekki farið yfir lögfræðilegu stöðuna í andsvari við mig fyrr í dag. Ef við neitum að greiða þetta þurfa Bretar og Hollendingar að sækja málið. Hvar er málið sótt? Jú, hjá íslenskum dómstólum. Við verðum að treysta íslenskum dómstólum.

Komið hefur fram mikil gagnrýni á dóm Hæstaréttar í stjórnlagaþingsmálinu. Sjálfstæðismenn voru sammála því að Hæstiréttur hefði farið þar algjörlega eftir lagabókstafnum og gefið það út að við ættum að fara að lögum. Ég get ekki skilið þá hræðslu sem sjálfstæðismenn sýna nú með því að hunsa þá leið að fara með málið fyrir dómstóla.

Formanni Sjálfstæðisflokksins var tíðrætt um það í dag að við værum fullvalda þjóð. Það er engin þjóð fullvalda ef hún treystir ekki dómstólum sínum til þess að dæma í málum, svo einfalt er það. Tíminn mun leiða í ljós hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn breytti afstöðu sinni í þessu máli en það var fróðlegt að sitja í þingsal og horfa á hæstv. fjármálaráðherra bregðast við því þegar framsóknarmenn og sjálfstæðismenn tókust hér á. Þá fitnaði púkinn á fjósbitanum og hló og setti sig samstundis á mælendaskrá því að sumir þrífast meira á ágreiningi en aðrir.

Mig langar til að fara yfir það hvað innstæðutryggingarsjóður er raunverulega. Innstæðutryggingarsjóður er sjálfseignarstofnun. Íslenski innstæðutryggingarsjóðurinn er notaður sem millistykki á milli íslenska ríkisins og breska og hollenska ríkisins. Úr því að ríkið sjálft eða Seðlabanki Íslands eru ekki aðilar að þessum samningi beint kemur Icesave-skuldin ekki inn sem skuld á ríkissjóð sjálfan eða Seðlabanka Íslands. Við þekkjum það, verið er að stofna hér dótturfélög þannig að við komum betur út úr matinu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Reynt er að fela það að verið sé að viðurkenna ríkisábyrgð með því að hafa innstæðutryggingarsjóðinn sem andlit íslenska ríkisins og íslenskra skattgreiðenda út á við. Það er nefnilega búið að búa þannig um hnútana að tryggingarsjóðurinn tekur lán hjá innlánstryggingarsjóðum Bretlands og Hollands og þá er íslenska ríkið fast í gildru ótakmarkaðrar ríkisábyrgðar með skaðleysissamningnum. Það snýst fyrst og fremst um það. Þó að hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson hafi fullyrt að það yrði afgangur þegar búið væri að gera upp bú Landsbankans er verið að leggja óbærilega ríkisábyrgð á íslenska skattgreiðendur. En hæstv. fjármálaráðherra lætur sér fátt um finnast um það, hann hefur í raun tekið hvert einasta gjaldþrota fyrirtæki og dælt þar inn ríkispeningum. Við getum nefnt Sjóvá, sparisjóðina, VBS fjárfestingabanka. Hann munar ekkert orðið um 20–30 milljarða á viku.

Það er orðið svo einkennilegt hvernig ríkisstjórnin fer með fjármál íslenska ríkisins að það jaðrar við að það sé óhuggulegt enda er það óhuggulegt að íslenska ríkið skuli vera í ríkisábyrgð fyrir 1.300 milljörðum. Herra forseti, við búum í landi sem telur rúmlega 312 þúsund einstaklinga, um 35% af þeim einstaklingum eru á vinnumarkaði og skapa hér skatttekjur.

Já, það eru sumir órólegir yfir þeirri staðreynd, enda hlakkar í samfylkingarfólki.

Það var það sem ég átti við þegar ég sagði að tryggingarsjóðurinn væri notaður sem millistykki vegna þess að samkvæmt samkeppnisreglum Evrópusambandsins sjálfs er bannað að veita ríkisábyrgð á fjármálastofnanir og önnur fyrirtæki sem eru á samkeppnismarkaði, það eru alveg skýrar reglur um það. En þegar íslenska ríkið tók yfir Landsbankann og Icesave gaf Evrópusambandið það skyndilega út að heimilt væri að virkja ábyrgð ríkisins og gerði kröfu á Íslendinga.

Talað var um gagnaver áðan, að sjálfstæðismenn og samfylkingarmenn hefðu loksins náð saman um það mál fyrir jólin. Hv. þm. Helgi Hjörvar talaði um að það væri mikið gæfuspor að sjálfstæðismenn og samfylkingarmenn væru sammála. Það má líka nefna að við lagasetningu gagnavera fyrir jólin var eitt gagnaverið sérstaklega tekið út og sett um það sérlög. Ég varaði við því allan tímann að það mundi brjóta gegn reglum EES-samningsins. Á það var ekki hlustað, málið var keyrt í gegn af mikilli hörku. Og hvað gerist? Það leið einn mánuður og þá kom tilkynning til íslenskra stjórnvalda um að málið væri til rannsóknar hjá ESA vegna þess að í lögunum fælist ríkisaðstoð.

Hvað er verið að gera með samþykki ríkisstjórnarinnar, Seðlabankans, Fjármálaeftirlitsins að kröfu Breta og Hollendinga? Lagt er til með frumvarpi, sem verður líklega brátt að lögum, að við setjum ríkisábyrgð á fallinn banka. Virðulegi forseti. Evrópusambandið ætti nú fyrst og fremst að fara að sínum eigin lögum og reglum í stað þess að beita valdi sínu með þessum hætti. Það verður að vera einhver smásamhljómur hjá sambandinu ef það ætlar að lifa til framtíðar. Það er staðan sem við erum í og ég fer ekki ofan af því að um ríkisaðstoð er að ræða enda er það alveg augljóst mál, það sjá það allir sem sjá vilja.

Mig langar til að grípa aðeins niður í það sem snýr að efnahagslegu fyrirvörunum þó að ég hafi í öllum samningunum talað meira um lögfræðihliðina. Efnahagslegu fyrirvararnir stinga mig mest þar sem talið er að það sé mjög lítil áhætta fyrir Íslendinga að taka þessa skuldbindingu á sig. Það sem breyttist m.a. í málinu á milli umferða er að síðasti gjalddagi Icesave-samninganna er ekki lengur árið 2030, nei, síðasta greiðsluárið er árið 2046. Ég spyr mig því á ný: Hvers vegna er búið að framlengja síðasta gjalddaga Icesave-samningsins ef engin áhætta felst í honum? Hvers vegna stöndum við bara ekki upp núna og hendum þessu frumvarpi fyrst talað er fyrir því að það sé engin áhætta fyrir íslenska ríkið?

Það er það sem mér finnst svo sárt í umræðunni. Hér koma sjálfstæðismenn upp hver á fætur öðrum og tala sig inn í að það sé engin áhætta, að búið sé að meta málið upp á nýtt og það sé þjóðhagslega hagkvæmt að samþykkja Icesave-samningana eins og þeir liggja fyrir.

Auðvitað er erfitt að skipta um skoðun, en það gerðist eitthvað í morgun hjá Sjálfstæðisflokknum sem enginn skilur. En við erum líka búin að sjá hvaða þingmenn hafa verið í þinghúsinu í dag og hafa talað fyrir þessu máli.

Ég hef alla tíð lagt á það áherslu að það er ekki lagainnstæða fyrir málinu og þess vegna skil ég ekki hvers vegna það er komið hingað í þriðja sinn. Um þennan samning gilda bresk lög, Common Law, og samkvæmt þeim lögum, sem eru af öðru tagi en íslenska lagakerfið, eru þeir samningar sem búnir eru til í því lagaumhverfi túlkaðir samkvæmt orðanna hljóðan ef þeir fara fyrir dómstóla. Það er nánast alveg sama hvar gripið er niður í hinn nýja samning, hann er óbreyttur að undanteknum vöxtunum og einhverjum nokkrum endurgreiðsluákvæðum. Sami skaðleysiskaflinn er inni, Ísland hendir öllu frá sér, það er hvergi ákvæði um hryðjuverkalögin inni í þessum samningi, ekki nú frekar en áður. Ísland hendir frá sér skilyrðislausu skaðleysi, það hendir frá sér fullveldisákvæðinu. Verði greiðslufall eða annað má sækja það til okkar. Það er ekkert annað en mjög hörð ríkisábyrgð og þar sem það fellur undir bresk lög er það þannig að það sem ekki er í samningnum dugar ekki að nota í dómsmáli. Enda þótt rætt sé um að málið fari hér fyrir gerðardóm erum við engu bættari því að við hendum á ný frá okkur dómsvaldinu.

Ég lagði mikla áherslu á það í umræðu um síðustu samninga að við mundum fá dómhána heim en þá brást ESA-dómstóllinn við því á þann hátt að okkur bæri skilyrðislaus skylda til að greiða skuldina. Það kom mjög gott álit frá hinum norska Peter Ørebech, sem er prófessor í lögum við Háskólann í Tromsø, þar sem hann tók málið lið fyrir lið og hrakti álit ESA-dómstólsins. Það sýnir okkur líka að við trúum því að dómstólar dæmi eftir lögum en það er svo sannarlega hægt að sjá í áliti Ørebechs að það stendur ekki steinn yfir steini í því áliti sem ESA gaf út vegna þessara samninga.

Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa upp úr áliti Peters Ørebechs:.

„Ítrekað skal á það bent að tilskipunin snýst ekki um heimild aðildarríkis til að bregðast við með einum eða öðrum hætti heldur um skorður sem ákvörðunarvaldi fullvalda aðildarríkja eru settar.“

Hér er fullveldi ríkisins kastað á glæ, því er hent út um gluggann til þess að þjóna erlendum þjóðum. Hvar er baráttuandinn og eldmóðurinn úr þorskastríðunum? Af hverju látum við fara svona með okkur? Af hverju festum við íslenska þjóð í snöru þessara gömlu heimsvaldaþjóða? Það er svo erfitt að horfa upp á það að maður geti ekki gert neitt til þess að fá fólk til að skipta um skoðun.

Það er ágæt tilvitnun í áliti Peters Ørebechs þar sem hann vísar í frétt Financial Times frá því mánudaginn 13. september 2010. Ég ætla að fá að lesa það yfir, með leyfi forseta:

„Icesave-samningurinn ýtir undir þá tilhneigingu sem nú ríkir að veita bönkunum ótakmarkaða ríkisábyrgð. Í þessu tilviki er hæpið að tala um lagaleg rök fyrir þörfinni á tryggingum og því síður verða þau sanngirnisrök fyrir henni. Ríkisstjórnir Bretlands og Hollands mundu aldrei verða við kröfum erlendra innstæðueigenda sem næmu þriðjungi af þjóðarframleiðslu ef einn af stóru bönkunum þeirra féllu.“

Svo segir orðrétt í Financial Times. Hvers vegna er þá verið að ráðast á okkur hér, smáþjóð í Norðurhöfum? Hvers vegna er ekki spyrnt við fótum? Getur verið að þetta sé aðgöngumiðinn í Evrópusambandið? Það liggur jú fyrir umsókn um aðild að Evrópusambandinu sem nú hefur komið í ljós að er beint aðlögunarferli. Það hefur löngum verið vitað að hæstv. utanríkisráðherra leggst á hnén og gerir hvað hann getur til þess að það aðildarferli gangi hnökralaust fyrir sig.

Er það sú kalda staðreynd sem við sjáum nú í þriðja sinn eftir að þjóðin hafnaði samningunum í byrjun síðasta árs, að það er raunar alveg sama hvað borið er á borð fyrir okkur? Ég er mjög hugsi yfir vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar. Það er nánast ekkert sem heppnast hjá henni, það má alveg segja það eins og er. Ríkisstjórnin getur ekki einu sinni haldið hnökralausar kosningar, þær voru dæmdar ógildar af Hæstarétti Íslands, af æðsta dómstól landsins. Þegar sá skandall var nýbúinn steig ríkisstjórnin fram með þetta mál. Hvað á að bjóða íslensku þjóðinni upp á næst? Hvað á að bjóða fólki upp á næst? 650 milljónir eru farnar í stjórnlagaþingið, í misheppnaðar kosningar. Það eru tvö rekstrarár St. Jósefsspítala í Hafnarfirði. Með þessum samningi er á góðum degi verið að leggja 23–230 milljarða á þjóðina samkvæmt áliti fyrirtækisins GAMMA, eftir því hverju fram vindur í efnahagsmálum.

Það er ekkert að gerast í efnahagsmálum undir stjórn þessarar vinstri stjórnar. Atvinnuleysi eykst, engin atvinnutækifæri eru sköpuð. Fólk er farið að flýja landið, því miður. Við Íslendingar ættum svo sannarlega að geta staðið saman þegar eitthvað bjátar á en þessi ríkisstjórn gerir þjóðinni það ekki kleift því að það er ekki hægt að fá hér nokkra atvinnu. Það er búið að drekkja þjóðinni í þeim skuldum sem lagt er til að komi nú ríkisábyrgð á. Er ekki nóg að láta ræna okkur einu sinni? Þarf að gera það tvisvar og þrisvar?

Lagt er til að ríkisvæða einkaskuldir banka sem var í eigu einstaklinga. Hér er ekki verið að bjarga ríkisbanka. Við þekkjum munstrið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, við sjáum munstrið víða um heim. Það á að koma þessum skuldum líka á okkur sama hvað það kostar.

Herra forseti. Maður verður hálfmáttlaus af því að þurfa að ræða þetta mál í þriðja sinn. Maður verður hálfmáttlaus af því að horfa á ríkisstjórnina vinna með þessum hætti. Ég hélt að ríkisstjórnin mundi láta sér þjóðaratkvæðagreiðsluna að kenningu verða og sýna tennurnar við Breta og Hollendinga í þetta sinn, en nei, það skal kosið aftur og aftur til að fá rétta niðurstöðu. Herra forseti, ég fordæmi þessi vinnubrögð.