139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[23:11]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er örugglega mjög erfitt að skipta um skoðun. Þingmaðurinn var nú eiginlega að tala sig upp í að samþykkja þennan samning. Það er hans mál.

Varðandi samninganefndina, að stjórnarandstaðan hafi átt þátt í að skipa þessa samninganefnd — sá sem fór fyrir henni sagði strax í upphafi að auðvitað hefði umboð nefndarinnar átt að vera það að ekki ætti að borga neitt því að skoðun hans var sú að við ættum að fara með málið fyrir dómstóla. Umboðið sem fjármálaráðherra veitti þessari nefnd var hins vegar einungis til að ná samningum. Það er það sem þessir ágætu aðilar gerðu og náðu niður vöxtunum, en það stóð hvergi í skipunarbréfi þeirra að þeir ættu að ganga frá borði og sýna fram á mótrök okkar. Eins og hv. þingmaður veit hefur hæstv. fjármálaráðherra ekki haldið mikið á lofti þeim rökum að við gætum farið í gagnsókn á móti hryðjuverkalagasetningu Breta. Það er alveg hreint með ólíkindum að það skuli ekki hafa verið gert.

En það má líka segja í þessari umræðu að ég trúi því ekki að hv. þingmaður sé alltaf sammála Seðlabanka Íslands þó að Sjálfstæðisflokkurinn eigi þátt í að skipa þangað menn. Þó að það sé eitthvert samkomulag um skipan einhverrar nefndar er ekki þar með sagt að viðkomandi aðilar þurfi að lúta því sem kemur út úr nefndarstarfinu.

Hv. þingmaður talar um að dómstólaleiðin sé ófær vegna þess að það standa sjö línur í nefndaráliti sjálfstæðismanna um að lögfræðingarnir hafi verið komnir að niðurstöðu um að við ættum ekki að fara í dómsmál. Eins og þetta plagg lítur út í dag er það nákvæmlega sú upphæð sem við yrðum dæmd til að greiða vegna jafnræðisreglu EES-réttar og þá spyr ég þingmanninn: (Forseti hringir.) Er ekki betra að láta dæma okkur til að greiða þetta en að taka það upp hjá okkur sjálfum að setja þetta á íslensku þjóðina?