139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[23:15]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki að gera lítið úr skoðunum annarra þó að ég bendi á þá staðreynd að hér hafa sjálfstæðismenn snúist á einu augabragði í þessu máli. Á einu augabragði, eins og einn ágætur þingmaður sagði í góðri umræðu einu sinni þegar við vorum nýsest á þing.

Hv. þingmaður bendir á að dómstólaleiðin sé jafnvel ekki fær. Samt er hún fær, en að mati sjálfstæðismanna í fjárlaganefnd er allt of mikil áhætta að fara dómstólaleiðina. Þá segi ég: Sá séns að fara dómstólaleiðina og vinna það dómsmál er langtum betri en að taka sénsinn á því að skrifa undir þessa óútfylltu ríkisábyrgð sem hangir yfir okkur eins og versti stríðsskaðasamningur til ársins 2046. Þau börn sem fæðast í dag verða orðin 35 ára þegar Íslendingar losna undan þessari ríkisábyrgðarkvöð sem lögð verður á okkur að beiðni Breta og Hollendinga.

Við skulum átta okkur á tímanum í þessu og því hvað er í húfi. Auðvitað eigum við sem fullvalda ríki að fara með þetta mál fyrir dómstóla því að þau rök að við lendum í hærri greiðslum eftir því hvað vaxtaprósentan er há standast ekki. Bretar og Hollendingar tóku sjálfir ákvörðun um að borga þessar innstæðutryggingar að fullu. Mér er stórlega til efs að einhver óháður dómstóll leggi til að við borgum vexti í dómsmáli þar sem þetta snýst um 20.887 evrur á hvern reikning. Sú leið er ófær og mér finnst leiðinlegt að hlusta á sjálfstæðismenn (Forseti hringir.) taka að nokkru leyti upp, því miður, hræðsluáróður ríkisstjórnarinnar.