139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

lækkun stýrivaxta.

[10:33]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Nýjustu lækkun stýrivaxta Seðlabankans fylgdu þau skilaboð að þess mætti ekki vænta að vextir lækkuðu frekar á næstunni. Skammtímaraunvextir í dag eru u.þ.b. 2% og raunvextir hafa verið jákvæðir allt frá hruni, í gegnum það tímabil sem þjóðin hefur glímt við einhverja mestu efnahagskrísu seinni tíma. Alls staðar í kringum okkur þar sem menn glíma við sambærilegan vanda, að reyna að koma lífi í atvinnustarfsemina og koma hagvexti aftur í gang, hafa raunvextir sums staðar verið neikvæðir og annars staðar við núllið allan þennan tíma. Hér hafa þeir verið jákvæðir og eru u.þ.b. 2% í dag.

Mig langar til að inna hæstv. forsætisráðherra eftir því hvort hún sé sammála því mati Seðlabankans að við þessar aðstæður sé ekki svigrúm til að lækka vexti frekar vegna þess að sannarlega eru jákvæðir raunvextir ekki til þess fallnir að aðstoða atvinnulífið eins og það hefur svo mikla þörf fyrir í dag.

Svo vil ég jafnframt nota þetta tækifæri til að segja, samhliða þeim efasemdum sem ég hef um vaxtastefnuna, að gengisstefna Seðlabankans er dálítið einkennileg þar sem fram hefur komið í nýjustu tíðindum þaðan að fyrirhugað sé að afnema gjaldeyrishöftin og þegar það gerist gæti myndast skammtímaþrýstingur á gengi krónunnar eins og segir í nýjustu tíðindum frá Seðlabankanum, með leyfi forseta:

„Óvissa um þessi skammtímaáhrif gefur tilefni til varfærni í áætlunum um gengisþróun, jafnvel þótt einnig sé hugsanlegt að losun hafta leiði til þess að gengi krónunnar hækki eða að lækkun gangi það hratt til baka að áhrifin verði hverfandi.“

Þau skilaboð berast sem sagt núna frá Seðlabankanum að þegar höftunum verði aflétt gæti gengið (Forseti hringir.) lækkað. Þó er ekki útilokað að það hækki, eða að það lækki og hækki. Þetta eru afar óskýr skilaboð frá Seðlabankanum svo ekki sé meira sagt.