139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

lækkun stýrivaxta.

[10:37]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Meginástæða þess að ég vek athygli á þessari yfirlýsingu frá Seðlabankanum er sú að ég hef áhyggjur af raunvaxtastiginu við þær aðstæður sem atvinnulífið býr að öðru leyti við í dag. Skammtímaraunvextir í kringum 2% eru háir vextir, sérstaklega þegar borið er saman við það sem við sjáum í löndunum í kringum okkur. Þegar þetta háa raunvaxtastig fer saman við aðgerðaleysi og óvissu annars staðar í atvinnulífinu er ekki mikils að vænta frá atvinnulífinu um sköpun nýrra starfa. (Gripið fram í: Lífeyrissjóðir …)

Varðandi gjaldeyrishöftin vil ég ítreka það sem áður hefur komið fram að það er gríðarlega mikilvægt að okkur auðnist að aflétta þeim sem allra fyrst. Það hvernig Seðlabankinn fjallar um það ferli í þessum nýjustu tíðindum gefur hins vegar ekki miklar væntingar um að menn viti hvenær það verður hægt og hvaða afleiðingar það muni hafa þegar menn spá því bæði (Forseti hringir.) að gengið geti lækkað og hækkað eða hækkað og lækkað, hvort sem verður á undan. Trúverðugleiki þess að gripið verði til þessarar ráðstöfunar (Forseti hringir.) er þá ekkert sérstaklega mikill.