139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

lækkun stýrivaxta.

[10:39]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að raunvaxtastigið í landinu skiptir máli fyrir atvinnulífið. Það er það sem við höfum verið að glíma við og erum að setja í forgang eins og hv. þingmaður veit þar sem við ætlum að kalla að borðinu á næstu dögum alla aðila atvinnulífsins og frá öllum þingflokkum til að fara yfir það hvernig við getum örvað atvinnulífið og hagvöxt. Þær tölur sem koma núna fram varðandi hagvöxtinn vekja frekar bjartsýni en hitt um að það verði 3% hagvöxtur hér á árunum 2011 og 2012. Samdráttur er minni á þessu ári en spáð var.

Ég er alveg sammála þingmanninum um að það skiptir máli hvernig farið er í gjaldeyrishöftin. Þær áætlanir sem eiga að liggja fyrir um það mál í marsmánuði líta þannig út að ég tel að það verði hægt að fara í afnám gjaldeyrishaftanna, fyrst með því að fara í skiptiútboð og síðan með því að skoða fjárfestingarmöguleika á (Forseti hringir.) aflandsgengi. Allt þetta ætti að hjálpa okkur til að afnema gjaldeyrishöftin sem ég lít á, alveg eins og með raunvextina, að sé mjög mikilvægt til að við getum byggt upp atvinnulífið.