139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

aðildarviðræður við ESB.

[10:48]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég greindi frá því að það hefði verið upplýst úr ræðustól Alþingis af hv. stjórnarliðum að þeir hefðu verið teymdir í hópum inn í bakherbergi til að fá þá til að samþykkja aðildarumsóknina að Evrópusambandinu, ella hefðu þeir það í hendi sér að ríkisstjórnin spryngi í loft upp. Hæstv. forsætisráðherra ber núna þá menn þeim sökum að þeir hafi farið með ósannindi úr ræðustól Alþingis. Þetta eru mjög alvarlegar ásakanir af hálfu hæstv. forsætisráðherra.

Hæstv. forsætisráðherra virðist ekki lifa í sama sólkerfi og við hin. Hæstv. forsætisráðherra dregur upp einhverja glansmynd af því hvernig Evrópusambandsviðræðurnar ganga fyrir sig. Það veit öll þjóðin að þetta er rangt hjá hæstv. forsætisráðherra. Hæstv. forsætisráðherra getur auðvitað rembst eins og rjúpan við staurinn og reynt að segja að þetta gangi allt saman vel fyrir sig. Það er ekki þannig. Það vita allir að það er bara ein ástæða fyrir því að þessum viðræðum við Evrópusambandið er haldið áfram, hún er þessi: (Forseti hringir.) Það er tryggingin fyrir því að halda ríkisstjórninni saman. Það er það eina sem vakir fyrir ríkisstjórninni, að halda henni saman (Forseti hringir.) með því að halda áfram þessum ESB-viðræðum í óþökk (Forseti hringir.) meiri hluta landsmanna.