139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

eftirlitshlutverk Alþingis og seðlabankastjóri.

[10:57]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við höfum talað mikið um það í þinginu að bæta þurfi starf Alþingis, styrkja eftirlitshlutverk þess og auka vægi þess. En svo búum við við það að embættismaður ríkisins, seðlabankastjóri í þessu tilfelli, mætir fyrir þingnefnd og neitar að tjá sig, neitar að upplýsa um athafnir sem áttu sér stað í tengslum við söluferli á tryggingafélaginu Sjóvá.

Það er mjög sérstakt að verða vitni að slíkri óvirðingu gagnvart Alþingi og hlutverki þess. Hlutverk Alþingis er meðal annars að hafa eftirlit með ríkisstofnunum og þar á meðal Seðlabankanum, hlýtur að vera. Mig langar að kanna hug forsætisráðherra, hvort hún sé sátt við þetta og hvort Alþingi eigi að sætta sig við slík vinnubrögð af hálfu seðlabankastjóra. Að mínu viti er það algerlega óásættanlegt að embættismaður í þessari stöðu leyfi sér slíkt og að mínu viti á hann að víkja.

Ég spyr því forsætisráðherra hvort hún sé sammála mér um að seðlabankastjóri eigi að víkja vegna þess að hann neitar að upplýsa Alþingi og leggur í raun stein í götu Alþingis sem er að rækja hlutverk sitt. Fyrir mér er það algerlega óásættanlegt að slíkt sé liðið og því spyr ég hæstv. forsætisráðherra þessarar spurningar og þætti vænt um að fá skýr svör.