139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

eftirlitshlutverk Alþingis og seðlabankastjóri.

[10:59]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það væri náttúrlega ágætt að heyra hvort hv. þingmaður hefur skoðað hvort um Seðlabankann gildi lög sem binda hendur seðlabankastjóra í upplýsingagjöf um tiltekin málefni og þau lög eigi hann að virða. Mér finnst ekki sanngjarnt að vega að faglegri hæfni seðlabankastjórans nema málið sé skoðað í því ljósi.

Ég hef oft rekið mig á það, ekki síst sem þingmaður og reyndar einnig sem ráðherra, að erfitt er að fá upplýsingar, ekki bara úr Seðlabankanum heldur líka hjá Fjármálaeftirlitinu. Og mér finnst að við eigum að fara sameiginlega yfir það í þinginu hvort þá eigi að rýmka eitthvað um í þeim lögum sem hugsanlega binda hendur Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins í því að veita upplýsingar sem kallað er eftir hér á þingi.

Ég varð vör við þetta í hruninu. Ég spurði margsinnis um ýmsar upplýsingar sem síðan kom í ljós að snertu hrunið en við fengum þær ekki og alltaf var vísað í lög, að Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn mættu ekki gefa þessar og hinar upplýsingar. Ég held að það sé alveg til staðar og eigi að halda því til haga hvort ekki eigi að fara yfir þá löggjöf sem bindur hendur þessara eftirlitsstofnana og hvort það sé eðlilegt.

Ég get vel tekið undir með hv. þingmanni að í mörgum tilvikum er það ekki eðlilegt og ætti að opna frekar fyrir þetta, að minnsta kosti að nefnd sem fjallar um tiltekið mál fái þær upplýsingar sem hún kallar eftir og að þær séu þá veittar í trúnaði. Ef eitthvað vantar upp á löggjöf í því efni á auðvitað að skoða það.