139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

eftirlitshlutverk Alþingis og seðlabankastjóri.

[11:01]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Í hvaða stöðu var seðlabankastjóri þegar hann veitti upplýsingar um tiltekinn fjárfesti sem vildi kaupa þetta tryggingafélag? Var hann þar sem seðlabankastjóri eða sem stjórnarformaður einkahlutafélags? Gilda sömu lög um seðlabankastjóra þegar hann er seðlabankastjóri og þegar hann er stjórnarformaður einkahlutafélags? Ég er ekki viss um að svo sé. Líklega er það ekki þannig. Líklega gilda lögin um það þegar hann er í embætti seðlabankastjóra. Þar af leiðir að seðlabankastjóri hefur sem stjórnarformaður einkahlutafélags — ég segi ekki að hann hafi brotið lög, ég get ekki fullyrt það, en hann hefur vitanlega lagt stein í götu Alþingis. Og eftir því sem mér skilst ná þessi lög ekki yfir hann þegar hann er í embætti sem stjórnarformaður einkahlutafélags. Því hljótum við að krefjast þess að slíkur maður víki.