139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[11:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum enn á ný Icesave-samninginn og er þetta eiginlega þriðja útgáfan af samningnum um Icesave. Stjórnarandstaðan stóð ásamt ríkisstjórnarflokkunum að því að leitað yrði samninga og tilnefndi til þess ágæta menn, Lee Buchheit og Lárus Blöndal, sem voru sendir út í heim til að ná samningi. Þeir náðu eins góðum samningi og þeir töldu unnt og ég trúi því að þeir hafi náð slíkum samningi vegna þess að þeir áttu við samningamenn sem eru þrautþjálfaðir í samningum eftir nokkur hundruð ára reynslu í utanríkismálum sem þar er geymd. En þeir voru ekki með slíkt umboð að þeir væru að semja fyrir hönd stjórnarandstöðu eða stjórnarliða heldur var það opið hvort menn mundu fallast á þá samninga sem þeir kæmu með, því að þó að þeir hafi náð eins góðum samningi og hægt var er ekki þar með sagt að þeir samningar séu góðir.

Samningurinn sem þeir komu með er verulega miklu betri en sá sem Alþingi samþykkti, alls ekki allir hv. þingmenn, 30. desember 2009 sem var dapurlegur dagur en að sama skapi var 5. janúar 2010 gleðilegur dagur þegar forseti Íslands hafnaði undirskrift þessa hræðilega samnings. Nú hefur það reyndar komið í ljós hvaðan …

Frú forseti. Er ræðutíminn búinn?

(Forseti (ÁRJ): Við skulum laga klukkuna, þetta er náttúrlega ekki nógu gott.)

(Gripið fram í.) Við reynum að taka þessu með gleði, frú forseti. Og ég græddi þarna einhverjar mínútur.

Fyrst skulum við velta því fyrir okkur hvers vegna Bretar og Hollendingar greiddu yfirleitt út Icesave til innlánseigenda. Það var vegna þess að þeir óttuðust um traust á bönkunum sínum, ekki á íslensku bönkunum, þeir hafa sennilega ekki haft neinar áhyggjur af þeim — enda töluðu þeir þannig að þeir fóru á hausinn — heldur voru þeir að hugsa um að ekki yrði gert áhlaup á banka í Bretlandi og Hollandi og um alla Evrópu ef í ljós kæmi að þetta yrði ekki greitt. Um leið og þeir voru búnir að greiða þetta minnkaði þrýstingurinn. En svo kemur það að þeir kúga og neyða Íslendinga til að samþykkja að greiða fyrir þetta traust á banka í Bretlandi og Hollandi og ætla að láta íslenska skattgreiðendur greiða það. Það er náttúrlega með ólíkindum. En menn mega ekki gleyma því að staða Íslands var hörmuleg eftir hrunið, nýju bankarnir höfðu ekki traust úti í heimi og millifærslur stöðvuðust. Ég hef reyndar beðið um skýrslu um það ástand sem var þannig að það var varla til gjaldeyrir fyrir lyfjum og olíu. Ég er ekki viss um að allir átti sig á því í hvaða stöðu ríkisstjórn og embættismenn voru á þeim tíma. Þeir kúga okkur fyrst með Brussel-viðmiðunum og síðan í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, í gegnum Evrópusambandið og bara alls staðar til þess að samþykkja þetta, að borga þessa skuldbindingu sem flestir telja að við eigum ekki að greiða.

Þeir hafa auk þess látið Íslendinga taka á sig alla áhættu af þessum samningi sem er alveg ótrúlegt. Bretar eru t.d. það miklu, miklu fjölmennari en Íslendingar að þá mundi ekki muna par um það að taka mestu áhættuna af Íslendingum, t.d. ef tjónið færi yfir 100 milljarða eða eitthvað slíkt, sem ég yrði mjög ánægður með en það var ekki inni í umræðunni. Þeir ætluðu bara að fá allt greitt. Þeir ætluðu að láta Íslendinga taka tjónið, áhættuna og allt og þannig er nú þessi samningur. Og þó að hann sé miklu, miklu betri er hann engu að síður þessu marki brenndur.

Mjög margt hefur breyst frá því að fyrri samningur var gerður. Óvissa breytist í vissu á hverjum degi. Margt hefur gerst sem er jákvætt. Ég nefni Iceland sem var og er mikil áhætta en hefur sýnt sig að hafa slegið út í jákvæða áhættu. Það er tilviljun en þess njóta Bretar og Hollendingar og Íslendingar náttúrlega líka vegna þess að áhættan minnkar. Vextir eru lækkaðir úr 5,55% niður í 3–3,3% og það er breytt lagaforsenda þannig að þessi samningur er verulega miklu betri. Maður gleðst náttúrlega yfir því og einhvern tíma kemur sá punktur að samningurinn er svo góður að maður segir bara: Ókei, nú skulum við samþykkja þetta.

Efnahagslegu fyrirvararnir í samningnum eru hættulegir. Menn hafa verið að dásama þá en þeir eru samt sem áður hættulegir. Það eru sem sagt 5% af tekjum ríkissjóðs miðað við fyrra ár og að þetta megi ekki fara yfir 1,3% af vergri landsframleiðslu. Það er ekkert um það t.d. ef hér yrði stöðnun, ef hér yrði landflótti, ef hagvöxtur yrði neikvæður, ef við lifum í þjóðfélagi sem stefnir hraðbyri í fátækt. Og mér sýnist allt stefna í það, frú forseti. Af hverju? Vegna þess að innflutningur hefur stórminnkað, bílaflotinn eldist með hverju ári, með hverjum degi reyndar, og það kemur að því að Íslendingar eiga ekki lengur bíla ef þetta á ekki að breytast. (Gripið fram í.) Sumir segja að það sé æðislegt. Ég er ekki viss um að þeir sem keyra börnin sín í leikskóla og annað slíkt á morgnana verði ánægðir með að fara annaðhvort labbandi eða á hjóli. Menn stefna í fátækt og það er ekki inni í þessum efnahagslegu fyrirvörum þar sem við eigum samt að borga 5% af tekjum ríkissjóðs sem fara þá minnkandi þegar skattstofninn er fluttur til Noregs eða eitthvað út, kannski að einhverju leyti vegna ríkisstjórnarinnar.

En hvaða kostir standa okkur til boða? Mér finnst vanta þá umræðu. Hún kom reyndar fram í frábærri umsögn Indefence-hópsins til fjárlaganefndar og ég vil þakka þeim aðilum, mörgum aðilum sem gáfu mjög góðar umsagnir og greiningu á vandanum til fjárlaganefndar. Þeim verður seint fullþakkað. Þeir standa vörð um hagsmuni sinnar þjóðar, það er nefnilega þannig. Ef við samþykkjum og segjum já fylgja því plúsar og mínusar. Í fyrsta lagi eru endurgreiðslur úr Landsbankanum gamla háðar ákveðinni óvissu sem getur dinglað fram og til baka en sú óvissa minnkar og minnkar. Ragnars Halls-ákvæðið er líka óvissa, hvort það næst í gegn eða ekki. Gengið er verulega mikil áhætta vegna þess að bankinn borgar út í krónum en innlánstryggingarsjóður sem fær krónurnar er að borga lán sem tengist gengi í erlendri mynt. Sérhver lítil breyting á genginu getur því þýtt óskaplegar skuldbindingar fyrir innlánstryggingarsjóð og af því að til stendur að ríkissjóður taki ábyrgð á þeim sjóði kemur það niður á skattgreiðendum Íslands.

Neyðarlögin eru óskaplega mikill áhættuþáttur og sú áhætta minnkar ekki þó að við segjum já. Það er stór áhættuþáttur hvort sem við segjum já eða nei, og málaferli engu að síður. Það getur fallið dómur í Bandaríkjunum eða einhvers staðar um að allir hluthafar sem töpuðu, allir sem fengu ranga ráðgjöf hjá Landsbankanum eigi rétt á að fá skaðabætur og það er ekki útséð um hve stór sú tala getur verið. Svo er líka spurningin um það hvort neyðarlögin haldi og allt það.

Menn hafa talað um að lánshæfismatið batni, menn töluðu um lækkun vaxta, að atvinnuleysi mundi minnka og að við fengjum lánveitingar allt í einu. Þetta er allt saman villuljós að mínu mati, allt saman villuljós. Þetta er óskhyggja. Fólk fer ekki að lána til Íslands vegna þess að Icesave-samkomulagið er samþykkt. Það þýðir bara meiri skuldbindingar á Íslendinga og lánshæfismatið ætti nú að versna við það þegar við tökum á okkur meiri skuldbindingar. Þetta er, held ég, allt saman villuljós.

Það að við getum aflétt gjaldeyrishöftunum, það getum við ekki, held ég, ef við samþykkjum þetta. Það eru ýmsir plúsar og mínusar við þetta samkomulag og það sem er jákvætt við það er að við fáum betra andrúmsloft í erlendum samskiptum. Ég geri ráð fyrir að svokallaðir vinir okkar verði kannski raunverulegir vinir en ekki óvinir eins og þeir hafa verið undanfarið og að Evrópusambandið sem við eigum mikið undir líti kannski dálítið jákvætt til Íslands.

Ef við samþykkjum ekki, hvað gerist þá? Þá verður líklega dómsmál og ef við vinnum dómsmálið borgum við ekki krónu. Það er þetta atriði — og nú ætla ég að taka dálitla þögn, frú forseti, til að undirstrika að þetta atriði hefur töluvert vægi. (Gripið fram í.) Þetta eru líkurnar á að þetta vinnist. Ég tel nefnilega töluverðar líkur á því að við mundum vinna málið. Ég treysti því að lögfræðingar geti ekki farið þvert á lög í dómum og dómarinn mundi skammast sín fyrir að fara eftir pólitísku álitamáli og flestir segja að við eigum ekkert að borga. En um þetta hefur lítið verið talað. Hvað gerist ef við vinnum málið? Það hefur ekkert verið talað um það. Þá fengjum við uppreisn æru erlendis sem innan lands og gætum horft hnarreist framan í allar þjóðir í kringum okkur og við greiðum ekki neitt, sem er afskaplega ánægjulegt. Og ef það yrði einhver kostnaður í sambandi við þessi málaferli fengjum við hann væntanlega endurgreiddan eins og allir sem vinna mál.

Ég veit ekki hve miklar líkur eru á þessu og ég vil gjarnan að hv. fjárlaganefnd, sem fær þetta mál til umsagnar, skoði líkur á því hvort við vinnum eða töpum málaferlum. Það hefur lítið verið skoðað hvað gerist ef við höfnum samkomulaginu.

Ef við töpum dómsmálinu getur það orðið annaðhvort þannig að við töpum því gagnvart 20.887 evrum, þessu lágmarki, og þá breytist eiginlega voða lítið. Við skuldum jafnmikið, vextirnir sem við þurfum að greiða verða væntanlega hærri og við þurfum að greiða strax sem er neikvætt. Líklega mundum við þá reyna að semja, en áhrif þessa á traust sparifjáreigenda á banka í Evrópu eru ófyrirséð vegna þess að ef við töpum málinu þýðir það að innlánstryggingarkerfið er ekki neins virði og þá getur orðið áhlaup á banka í Evrópu. Ég kem að þessu í ræðu á eftir.

Ef við töpum á þann veg að við eigum að borga allar innstæður erum við í mjög slæmum málum, þá þurfum við að borga hærri vexti og við þurfum að greiða strax o.s.frv. Þetta eru það stórar upphæðir að við gætum það ekki og niðurstaðan yrði líklega gjaldþrot Íslands. Það yrði ansi slæm niðurstaða og mér finnst að menn þurfi að meta hana. En ég vil benda á að á hverju ári deyr einhver í umferðinni og við keyrum samt af því að líkurnar eru svo litlar að hver einstakur deyi í einhverri bílferð. Þarna eru líkurnar litlar en afleiðingarnar hörmulegar, nákvæmlega eins og ef einhver fer út í bíl og deyr þá eru afleiðingarnar fyrir hann greinilega hörmulegar. (Gripið fram í: Það eru ekki allir svo öryggissinnaðir.) Já, svo er það öryggi …

Annar áhættuþáttur, sama hvort við samþykkjum eða ekki, er neyðarlögin og það er eitthvað sem menn þyrftu líka að velta fyrir sér. Ef við töpum málinu — ég tel mig hafa lesið það einhvers staðar í skjölum Evrópusambandsins, ég hef bara ekki fundið það aftur — yrði okkur heimilt að borga í krónum og það er mjög góð staða að borga í krónum vegna þess að þá getum við sett á þetta fjármagnstekjuskatt, gjaldeyrishöft og allt svoleiðis og Bretar og Hollendingar næðu aldrei þessum peningum út. [Hlátur í þingsal.] Þeir yrðu bara valsandi inni með einhverjar heljarinnar innstæður og við gætum séð til þess að það yrðu neikvæðir vextir og svoleiðis. Það gæti verið góður kostur.

Ef við töpum málinu er það vissulega álitshnekkir en ég hugsa að ef við segjum nei verði ekkert dómsmál vegna þess að í báðum tilfellum, hvort sem við töpum eða vinnum, er það slæmt fyrir traust manna á innlánstryggingarkerfið í Evrópu. Ef við vinnum er ekkert að marka það allt saman, það er engin trygging, og ef við töpum er heldur ekkert að marka það því að þá verða skattgreiðendur látnir borga og það er fyrirséð að skattgreiðendur geta ekki borgað í mörgum löndum ef svona stórt hrun verður.

Ég bað um að það yrði lagt líkindafræðilegt mat á þessar endurgreiðslur. Hvernig líta þær út? Hvað eru miklar líkur, hvað töpum við miklu með væntigildi ef við segjum já, hvað þurfum við að borga mikið með einhverju staðalfráviki ef við segjum nei? Þetta mundi ég vilja sjá en það er mjög erfitt að meta líkurnar á þessu.

Þetta mál allt saman hefur helgast af ofbeldi og nauðung og það er alveg sérstök lífsreynsla, frú forseti, að sjá hvernig þjóðir turnast og öll sanngirni, allt sem heitir réttlæti og sanngirni, lög og reglur hverfa og menn beita bara grímulausu ofbeldi og hnefarétti. Þannig var það. Lögin í Bretlandi voru notuð, hryðjuverkalögin. Alveg fráleitt. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn var notaður til að kúga okkur og sem betur fer komu Kínverjar þá inn í dæmið og hjálpuðu okkur. Ég hugsa að það hafi ekki verið af góðmennsku en þeir komu þarna inn af einhverri ástæðu. (Gripið fram í.) Sennilega til þess að takmarka yfirgang Evrópusambandsins og sýna vald sitt. Þetta var viðskiptastríð. Gjaldeyrismarkaðurinn hrundi og svo voru samþykkt Brussel-viðmið sem mér finnst menn ekki hafa farið eftir. Í fylgiskjali með þingsályktun frá Alþingi stendur, með leyfi frú forseta:

„Ríkisstjórn Íslands hefur átt viðræðufundi með stofnunum Evrópusambandsins og hlutaðeigandi aðildarríkjum þess um skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið að því er tekur til tilskipunar um innstæðutryggingar …“

Síðan stendur:

„Þessar samningaviðræður skulu fara fram með samhæfðum og samræmdum hætti og skal þar tekið tillit til hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í og knýjandi nauðsynjar þess að ákveða ráðstafanir sem gera Íslandi kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt. Stofnanir Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins munu taka áframhaldandi þátt í þessu ferli sem fer fram í samráði við þær.“

Þetta hefur aldrei verið notað og ég skil ekki af hverju. Hér situr hæstv. utanríkisráðherra og það er kannski ágætt að spyrja hann: Af hverju sofnaði hann á verðinum í þessu máli? Af hverju notaði hann ekki stofnanir Evrópusambandsins sem þær voru búnar að lofa að nota í þessu ferli? Af hverju hefur þetta aldrei verið notað? Ég spyr.

Svo vara ég við nýjum reglum um innlánstryggingarsjóð, ég vara alvarlega við þeim. Ég ætla ekki að fara nánar út í það en þar þarf virkilega að taka á. Í bráðabirgðaákvæði með greinargerð meiri hlutans er ákvæði um að það eigi að setja fjármuni í einhvers konar fjáraukalög. Ég hefði viljað kalla þetta fjáraukalög, að þetta væru hrein og klár fjáraukalög. Það er ekkert sem segir, frú forseti, að það megi ekki koma með mörg fjáraukalög á hverju ári, og þegar menn eru að setja svona stórar upphæðir á ríkissjóð er alveg sjálfsagt að setja um það fjáraukalög. En það vantar líka 650 milljarða sem er ábyrgðin á láninu, sem er lánsskuldbinding, og ég er að hugsa um að koma með breytingartillögu við 3. umr. um einmitt það að þetta verði hvort tveggja sett í fjáraukalög, þannig að börn okkar sem eru skattgreiðendur framtíðarinnar viti hvað bíður þeirra. Það er mjög mikilvægt.

Ef við segjum já, sem allir hafa rætt um, þá eru kostir og gallar og við þurfum að borga svo og svo mikið og jafnvel niður í ekki neitt og jafnvel upp í mjög stórar upphæðir sem við ráðum illa við. Það eru líkindafræði. Ef við segjum nei eru það líka líkindafræði og ég vildi gjarnan að menn skoðuðu það. Ég vil gjarnan að hv. fjárlaganefnd, sem fær þetta mál milli 2. og 3. umr., taki virkilega á þessum málum, setji upp líkindamódel þó að það sé erfitt svo hún geti vegið og metið hvað það kostar að meðaltali ef við segjum já, með ákveðnu staðalfráviki, hvað það kostar að meðaltali ef við segjum nei, með ákveðnu staðalfráviki, og þá getum við tekið vitræna ákvörðun um þetta. Þangað til er ég óráðinn í þessu. Það hefur mjög margt komið fram og þessi samningur er svo góður að maður getur allt að því samþykkt hann, en ég vildi gjarnan fá þessar upplýsingar sem ég bað um. Þær koma reyndar fram í góðri (Forseti hringir.) úttekt Indefence, en ég óska eftir því að þetta verði unnið frekar.