139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[11:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég kom þessari ósk á framfæri við fulltrúa mína í fjárlaganefnd, einmitt að þetta yrði metið líkindafræðilega. Ég hygg reyndar að menn sjái ekki almennilega hvernig hægt er að gera líkindafræðilega dreifingu á úrslitum dómsmáls en það er alveg hægt. Maður fær bara til sín 10, 20 mikla sérfræðinga í málinu og biður þá um að dæma og dómurinn fellur svona og svona og svo tekur maður af því staðalfrávik, meðaltal og annað slíkt. Þetta er alveg hægt en það kostar og tekur tíma. En mér finnst það nauðsynlegt vegna þess að ef 70% líkur eru á því að við vinnum málið þá hugsa ég að ég mundi segja nei. Ef það eru kannski mjög litlar líkur á því að við lendum í gjaldþroti, segjum 0,1%, mundi ég örugglega segja nei. En ef líkurnar á gjaldþroti eru 5% mundi ég sennilega segja já þó að það yrði dýrara.