139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[11:27]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú kom fram í áliti þessara fjögurra lagasérfræðinga sem voru fengnir til að meta þetta að þeir teldu nánast engar líkur á því að við þyrftum að borga meira en 20.887 evrur. Ég veit að þingmaðurinn fór aðeins yfir það áðan og ræddi möguleikana á því. Þeir telja það eiginlega útilokað. Þeir telja hins vegar að það versta sem gæti gerst væri að við mundum borga þessar 20.887 evrur sem við erum að borga í dag. Langflestir þeirra sem hafa komið að öllum stigum málsins hafa hingað til metið það svo að við mundum vinna málið. Ég segi því: Ef maður færi yfir þetta allt saman, ef maður færi yfir rök lögfræðinganna væru þessi 70% á borðinu vegna þess að það eru í rauninni tveir sem lýsa yfir þeirri skoðun að þeir telji litlar líkur á því að við mundum vinna málið en tveir úr þessum lögfræðingahópi segja að það séu miklar líkur á því að við mundum vinna það.

Ef við lítum á þau gögn sem nú eru til staðar, er það þá ekki þannig að það eru meiri líkur en minni að við munum vinna málið? Og þá ætti þingmaðurinn, til að vera samkvæmur sjálfum sér, að segja nei við þessu frumvarpi.