139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[11:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það vill svo til að í þingsköpum og stjórnarskránni stendur að hvert mál skuli hafa þrjár umræður. Af hverju í ósköpunum? Af hverju eru þrjár umræður ef menn eiga bara að taka ákvörðun strax í byrjun og segja: Heyrðu, ákvörðun mín er svona eða hinsegin? Umræðan er til þess að menn geti mótað sér skoðun. Þegar þetta samkomulag kom fyrst fram og þegar ég sá hvað skuldbindingin hafði lækkað, líka vegna ytri aðstæðna, það hefur margt breyst okkur til hagsbóta, og hvað hún var orðin lítil þá var fyrsta hugsun mín sú að samþykkja þetta. Síðan þegar ég sá öll gögnin sem komu fram og hvernig áhættan dreifðist fylltist ég efa um að rétt væri að samþykkja þetta.

Ég ætla að taka mér þann tíma sem stjórnarskráin og þingsköpin gera ráð fyrir, þ.e. að hér séu þrjár umræður þar sem menn reifa málin fram og til baka. Ég hef óskað (Forseti hringir.) eftir því að hv. fjárlaganefnd taki fyrir ákveðna þætti og þeir skýra þá málið enn frekar.