139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[11:34]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Rétt eftir að ég bað um að fá að fara í andsvar við hv. þingmann svaraði hann reyndar því sem ég ætlaði að spyrja hann um, hvort ekki væru allar líkur á því að það yrði ekkert dómsmál vegna þess að sama hver niðurstaðan verður þá verður hún slæm fyrir Breta og Hollendinga, eins og hv. þingmaður benti á.

Hins vegar hefur hann töluverðar áhyggjur af 0,1% eða 3% eða hverjar líkurnar eru á því að Íslendingar yrðu dæmdir til að borga allar innstæður. Ég fæ reyndar ekki séð hvernig ætti að vera hægt að dæma í þá veru þegar þessi umdeilda lágmarkstrygging er ekki nema um 20 þús. evrur, en hvað um það. Er hins vegar ekki alveg ljóst að eignir þrotabúsins á hvort eð er að nota til að borga nærri því allar innstæðurnar? Það er í raun verið að gera betur við breska og hollenska innstæðueigendur en íslenska vegna þess að þeir endurheimta nærri því 100% af þeim verðmætum sem þeir áttu í bankanum. Íslenskir innstæðueigendur hafa hins vegar tapað hátt í helmingi af verðmætum innstæðna sinna vegna þess að þær voru í krónum, gengi þeirra hefur hrunið, verðbólgan verið mikil o.s.frv.