139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[11:39]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef hv. þm. Pétur Blöndal mun taka þá ákvörðun að styðja þennan samning vil ég spyrja þingmanninn hvort hann telji að við getum að einhverju leyti innheimt þann kostnað með því að höfða mál gegn Bretlandi út af setningu hryðjuverkalaganna.

Síðan vil ég spyrja þingmanninn hvort hann hafi eitthvað velt fyrir sér hvort þessi ríkisábyrgð sé tilkynningarskyld ríkisaðstoð við einkaaðila, eins og kom í ljós varðandi Sjóvá-Almennar. Þar var sett inn, held ég, helmingi lægri upphæð en er verið að tala um að setja í breytingartillöguna sem liggur fyrir um að heimila 26 milljarða af ríkisfé á þessu ári.

Ég vil líka taka undir tillögu þingmannsins um að heildarábyrgðin sem er verið að undirrita komi fram í bókum ríkisins. (Forseti hringir.)

Að lokum spyr ég þingmanninn hvort hann mundi styðja það að málið færi í þjóðaratkvæðagreiðslu.