139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[11:41]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það mátti skynja af ræðu hv. þm. Péturs Blöndals að hann hefði kynnt sér þetta mál mjög vel og þær umsagnir og þau álit sem komið hafa frá fjárlaganefnd. Hefur þar einhvers staðar komið fram að um sé að ræða tilkynningarskylda ríkisaðstoð og að tilkynnt hafi verið að íslenska ríkið hyggist taka á sig ábyrgð upp á 650 milljarða eins og þingmaðurinn nefndi? Er ekki eðlilegt að það verði tilkynnt til ESA og fengið grænt ljós á þá ríkisaðstoð áður en tekin verður ákvörðun á þingi um að samþykkja ríkisaðstoðina?

Ég vil ítreka spurningu mína um hvort við getum hugsanlega, ef þetta verður samþykkt, innheimt þann kostnað sem mun falla á íslenska ríkið með því að höfða mál gegn Bretlandi út af setningu hryðjuverkalaganna og hvort hann mundi styðja þá tillögu sem liggur fyrir þinginu um (Forseti hringir.) að fara í þess háttar mál.