139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[11:42]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst það mjög athyglisvert sem hv. þm. Eygló Harðardóttir kemur inn á. Hugsanlega ættum við að flytja þingsályktunartillögu um að fela ríkisstjórninni að tilkynna þennan gífurlega ríkisstyrk til ESA og sjá hvernig þeir bregðast við. Það er mjög athyglisverð hugmynd og ég held að við ættum bara að drífa í því.

Varðandi það að fara í mál, ég hef alltaf stutt það að fara í mál. Ég skil ekki af hverju í ósköpunum við höfum ekki farið í mál eða stutt þá aðila, t.d. hluthafa Kaupþings, litlu hluthafa Kaupþings, einhvern þeirra, til að fara í mál við breska ríkið því að breska ríkið olli falli Kaupþings, fullyrði ég. Það hefur náttúrlega komið í ljós að innviðirnir voru orðnir ansi fúnir en engu að síður ollu ummæli bresks ráðherra í sjónvarpinu, um að Íslendingar ætluðu ekki að borga, áhlaupi á bankann og þar með hruni hans.