139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[11:43]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Enn ræðum við Icesave og skal engan undra. Icesave-málið eða Icesave-klúðrið hefur heltekið umræðu og stjórnkerfi landsins í langan tíma enda hefur það á stundum — og hér vísa ég sérstaklega til Icesave 1 og jafnvel Icesave 2 — ógnað bæði fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar.

Auðvitað var Icesave 1 óhæfa. Samt voru hér þingmenn sem töldu ekki að það þyrfti að ræða það í þinginu og voru jafnvel tilbúnir að samþykkja samninginn óséðan. Auðvitað var það einnig þannig með Icesave 2 sem var samþykkt eftir miklar umræður — eða ætti ég kannski frekar að segja einræður — okkar framsóknarmanna og annarra stjórnarandstæðinga, því að þeir stjórnarþingmenn sem voru tilbúnir að samþykkja Icesave 1 órætt og óséð voru nefnilega líka tilbúnir að samþykkja Icesave 2 og vildu ekki eða höfðu ekki áhuga að rökræða við okkur haustið 2009. Þeir kölluðu meira að segja umræðu okkar, þar sem við rökstuddum galla og kosti og spurðum spurninga, málþóf enda samþykktu þeir þann ómögulega samning að kvöldi 30. desember 2009, eins og ógleymanlegt verður öllum sem hér voru og allri þjóðinni, svo tilfinningaþrungið sem það kvöld var. Hefði ekki verið nær, skynsamlegra, gáfulegra og happadrýgra ef stjórnarþingmenn hefðu hlustað á rök okkar framsóknarmanna og fleiri um hversu hættulegur samningur Icesave 2 væri þjóðinni?

Eins og við munum hlustuðu þjóðin og forsetinn á rökin, tóku þau til sín og höfnuðu í þjóðaratkvæðagreiðslu, 98% gegn 2%. 2% voru sammála meiri hlutanum í þinginu.

Nú liggur Icesave 3 hér á borði. Nú koma sömu stjórnarþingmennirnir og vilja samþykkja samninginn, segja það eina vitið. Eru þeir trúverðugir eftir það sem á undan er gengið? Þeir mega þó eiga það að þessu sinni að það eru fleiri sem þora að koma fram og ræða skoðanir sínar. Hafa þeir allir beðist afsökunar og óskað fyrirgefningar á yfirsjónum sínum varðandi Icesave 1 og 2? Ekki nærri allir og er þó ærin ástæða til.

Auðvitað er þetta samkomulag, Icesave 3, betra, jafnvel miklu betra en fyrri samningar. Samkomulagið er til að mynda ekki undirritað af ríkisstjórninni eins og óhæfan sem átti að troða ofan í kok íslenskrar þjóðar með góðu eða illu, með réttu eða röngu. Hversu miklu betri er þessi samningur?

Jón Daníelsson hagfræðingur reiknaði út að kostnaður við Icesave 2 væri um 523 eða 524 milljarðar. Nú hafa menn talið að kostnaðurinn sé um 68 milljarðar, mismunurinn er hátt á fimmta hundrað milljarða kr. Samkomulagið um Icesave 3 er ekki kúgunarsamningur stórvelda gegn smáþjóð eins og Icesave 1 og 2 voru. Það er ekki venjulegur lánssamningur þar sem lánveitandinn, þ.e. Bretar og Hollendingar, ætlar að græða á kúguðum lántakanda, íslensku þjóðinni, enda komu að þessum samningum alvörusamningamenn, menn eins og Lee Buchheit sem við framsóknarmenn fórum fram á strax sumarið 2009 að yrði fenginn til að koma að málinu. Hann stýrði samningalotunni. Einnig var Lárus Blöndal fenginn til samningsgerðarinnar af stjórnarandstöðunni.

Lee Buchheit sagði frá upphafi að tíminn mundi vinna með okkur. Lykilatriði væri að átta sig á því hver upphæðin væri sem við ættum að greiða, um hvað væri verið að tala. Ekki semja fyrir fram um greiðslur sem við vitum ekki hverjar eru, það væri hreinlega óskynsamlegt ef ekki alvitlaust.

Hverjir munu borga? Áðan voru sex ára börn hér á pöllunum og mér fannst að það ríkti mildilegri og léttari andi yfir þingsalnum á meðan þau voru hérna inni. Kannski væri það skynsamlegt að öðru hverju kæmu leikskólabörn á pallana til að við hugsuðum aðeins lengra fram í tímann en einn dag í einu eins og í hinu pólitíska dægurþrasi, kannski væri rétt að við hugsuðum 20, 30, 40 ár fram í tímann því að þetta er sú kynslóð sem mun borga Icesave, börnin sem voru hérna uppi áðan.

Lee Buchheit, formaður samninganefndarinnar um Icesave 3, sagði líka frá upphafi og staðfesti það daginn sem samninganefndin kom heim með samkomulagið fræga í desember, það var sérkennilegur dagur, að sér hefði alltaf fundist eðlilegast að fara með málið fyrir dómstóla. Það væri þess eðlis.

Við ræddum í gær um hryðjuverkalög Breta og þá árás sem þeir gerðu á íslenskt efnahagslíf, íslenska þjóð, að við hefðum ekki borið gæfu til að svara því fullum hálsi heldur lyppast niður. Það hefur líka verið rætt á síðustu dögum að menn hefðu, með finnskan þingmann í forsvari, gefist upp fyrir Evrópuráðinu. Þeir óttuðust að ekki þýddi að fara að rannsaka ákveðið mál til að athuga hvort um mannréttindabrot væri að ræða vegna þess að trúlega væri breska löggjöfin þannig að Bretar hefðu haft heimild til þess sem þeir gerðu samkvæmt breskum lögum en Evrópuráðið hefði ekki kjark í sér til að athuga hvort bresku lögin stæðust mannréttindaákvæði Sameinuðu þjóðanna og annað í þeim dúr. Við höfum einnig horft upp á hótanir Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og stóru þjóðanna í þessu máli og er óþarfi að rifja það upp hér.

Staða okkar væri án efa miklu betri ef við hefðum frá upphafi staðið á rétti okkar, bæði varðandi árás Breta á okkur með beitingu hryðjuverkalaganna og einnig varðandi Icesave. Ég ætla ekki að gera lítið úr því sem fram kom í máli hv. þm. Péturs H. Blöndals, að tímarnir voru erfiðir í október 2008. Engu að síður fór Guðni Ágústsson, þáverandi formaður Framsóknarflokksins, upp í pontu 15. október, skömmu eftir að Bretar beittu hryðjuverkalögunum á okkur og stuttu eftir hrun bankanna, og sagði að við ættum að svara fullum hálsi. Við ættum að kæra Breta fyrir að hafa beitt okkur hryðjuverkalögum og við ættum að standa í lappirnar í Icesave-málinu og svara fullum hálsi. Það er ekki spurning að staða okkar væri betri í dag ef það hefði verið gert, en það gerði ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks ekki. Hún lyppaðist niður og það sama hefur verið upp á teningnum alla tíð ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna. Hvort sem það eru ESB-draumar Samfylkingar sem ráða þeirri för eða hefðbundið kjarkleysi flokka sem sækja allan sinn styrk og hugsjónir til erlendra systurflokka skal ég ekki segja, en það er ekki íslenskt og það er ekki skynsamlegt. Nú er það kallað að axla pólitíska ábyrgð að vera sammála um að vera kjarklaus, samanber umsnúning sjálfstæðismanna og hrós hæstv. fjármálaráðherra og utanríkisráðherra í garð sjálfstæðismanna í gær. Það er kallað pólitísk ábyrgð.

Ávinningur okkar af því að hafa gefið okkur góðan tíma, eins og við framsóknarmenn og Lee Buchheit og fleiri höfum lagt til frá upphafi, hefur komið betur og betur í ljós, tíminn vinnur með okkur. Hver segir að hann sé hættur að gera það? Trúir einhver þeim sem vildu samþykkja Icesave 1 og 2 og nú 3 þegar þeir segja að nú muni atvinnulífið blómstra, nú muni efnahagslífið taka við sér og að öll erlend samskipti verði frábær og hnökralaus? Það er sama fólkið og talaði um Kúbu norðursins, sem sagði að skuldatryggingarálag íslenska ríkisins mundi fara upp úr öllu valdi og íslensk fyrirtæki gætu hvorki fjármagnað sig né átt í eðlilegum viðskiptum fyrr en við samþykktum Icesave 1, Icesave 2 og nú Icesave 3. Ég spyr: Er það trúverðugt fólk í þessu máli?

Þrátt fyrir að samkomulagið um Icesave 3 sé að mörgu leyti miklu betra plagg en fyrri samningar og þrátt fyrir breytinguna á samkomulaginu eru margar hættur enn meðfylgjandi því. Við framsóknarmenn getum þó sannarlega verið ánægðir með að hafa lagt okkar lóð á vogarskálarnar til að stöðva Icesave 1 og 2 þar sem við vorum á móti báðum samningunum. Við getum einnig verið ánægðir með að hafa lagt til alvörusamningamenn. En að mínu mati er áhættan í nýja samkomulaginu þess eðlis að ekki er hægt að samþykkja það óbreytt.

Hver er helsta áhættan? Jú, komið hefur fram í ræðum þó nokkurra þingmanna hver hún er, þar á meðal í máli hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar og eins hv. þm. og formanns Framsóknarflokksins, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Í máli hans kom fram að því miður er engin breyting á áhættunni í hinu nýja tilboði Breta og Hollendinga þar eð í ljós hefur komið við skoðunina að við Íslendingar eigum einir að bera áhættuna af óvissunni og hún er mikil þrátt fyrir að ýmsir stjórnarliðar og nú sjálfstæðismenn velji að óska sér að öll óvissan fari í jákvæða átt. Munið hverjir eru trúverðugir í þessari umræðu. Eru það þeir sem alltaf hafa sagt að Icesave sé ekkert mál, að aðalatriðið sé að klára samninga við stórþjóðir eða erum það við framsóknarmenn sem höfum alltaf bent á kostina og gallana í stöðunni og höfum alltaf haft rétt fyrir okkur? Hvorir eru trúverðugri?

En hver er áhættan? Eins og fram kom í ræðu formanns Framsóknarflokksins er óljóst hvenær farið verður í að greiða út úr þrotabúi Landsbankans. Fram að því hrúgast upp vextir sem ríkið mun svo sitja uppi með. Margir hafa bent á að langt geti verið í að greiðslur hefjist og við þekkjum að í slíkum málum geta gjaldþrota- og skilanefndarmál gengið í mörg ár og á meðan munu vextir verða greiddir af okkur. Nú á þessu ári eru það 26 milljarðar sem eru meira en sex sinnum hærri upphæð en við skárum niður um í heilbrigðiskerfinu á þessu ári og var það talsvert erfitt verk í þingsal.

Annað atriði er að eignir þrotabúsins eru enn að mestu leyti áhættufjárfestingar. Verði framhald á fjármálakrísunni í Evrópu mun verðmæti þeirra falla mikið, við vitum það ekki. Sveiflurnar eru miklar.

Þriðja atriðið er að gengi krónunnar má ekki falla frá því sem nú er eigi kostnaðurinn sem lendir á skattgreiðendum ekki að aukast. Þess vegna er gagnlegt að minnast þess að gengið sem reiknað var með við mat á tilboðinu er ekki raunverulegt gengi krónunnar erlendis heldur gengi Seðlabankans. Einn af ráðgjöfum fjárlaganefndar, greiningarfyrirtækið GAMMA, benti t.d. á að það þyrfti ekki mikla breytingu á gengi krónunnar og endurheimtum á greiðslutíma þrotabúsins til að kostnaðurinn færi yfir 230 milljarða, ekki þessa 68 milljarða mínus 20 milljarða sem eru í TIF þannig að við þurfum að greiða 47 milljarða, heldur að það færi hugsanlega yfir 200 milljarða. Þess vegna er óskiljanleg sú umræða sem fór fram fyrr í dag um að þegar gjaldeyrishöftin verða tekin af muni efnahagslífið fara að blómstra, eins og fram kom í máli hæstv. forsætisráðherra, ég gat ekki skilið annað. Það er alveg augljóst að gjaldeyrishöftin verða að vera allan þann tíma sem við greiðum af Icesave-tilboði nr. 3. Það er allt of mikil áhætta að taka þau af.

Í fjórða lagi má nefna að Landsbankinn telur heildsöluinnlán, þ.e. þær innstæður sem sveitarfélög og stofnanir í Bretlandi og fleiri slíkir lögðu inn, ekki til forgangskrafna. Aftur á móti gerði Glitnir það. (Fjámrh.: Akkúrat öfugt.) Ef Landsbankinn tapar yfirstandandi málaferlum vegna þessa bætast yfir 170 milljarðar á seðlabankagengi við kröfurnar. Og hvað ætli það verði mikið ef krónan fellur? Áhættan hleypur því á hundruðum milljarða. Þá áhættu mætti minnka töluvert með því að setja inn í samningana hið svokallaða Ragnars H. Halls-ákvæði. Það er eitt af því sem þyrfti að ræða og skoða milli 2. og 3. umr. í fjárlaganefnd ásamt öllum þeim fjórum atriðum sem ég hef talið upp og við þingmenn Framsóknarflokksins höfum rætt í þessu samhengi.

Við höfum rætt talsvert um dómstólaleiðina og sýnist sitt hverjum um að fara með málið í dómsal. Auðvitað fylgir því ákveðin áhætta, enginn veit hvernig slíkt endar en staðreyndin er sú að áhættan sem fylgir dómsmáli er mun meiri fyrir Breta og Hollendinga en Íslendinga. Tapi þeir málinu getur það sett fjármálakerfi Evrópu í uppnám, eins og fram hefur komið í máli margra þingmanna, en tapi Íslendingar þurfa þeir í mesta lagi að gera það sama og ætlast er til að þeir geri nú samkvæmt núverandi tilboði, standa við greiðslu forgangskrafna og lágmarksinnstæðutryggingar.

Við höfum líka rætt um að Icesave sé ein af forgangskröfunum. Það var rætt í morgun og hefur reyndar verið rætt oft áður að Icesave sé ein mesta hindrunin við að endurreisa íslenskt efnahagslíf. En er það svo? Ráðast ekki alþjóðaviðskipti fyrst og fremst af áhættu og hagkvæmnismati, hvort menn trúi því og treysti að þeir geti átt viðskipti og haft af því ábata? Það hefur mér sýnst og heyrst á þeim fyrirtækjum sem verið hafa í viðskiptum? Það hefur sannast með því að stórfyrirtæki eins og Marel, Össur og fleiri slík fyrirtæki hafa getað fengið fjármögnun sína erlendis þrátt fyrir Icesave. Hins vegar hefur það líka komið í ljós að bankar eða fjárfestingarsjóðir sem stjórnað er af fjármálastjórnmálamönnum Evrópu, eins og Evrópski þróunarbankinn og jafnvel Norræni fjárfestingarbankinn, hafa ekki verið jafnauðveldir í taumi, enda er þeim stýrt pólitískt.

Hins vegar er ljóst varðandi hindranir við endurreisn efnahagslífsins að skattstefna ríkisstjórnarinnar hefur reynst stórskaðleg og eins reglur og umræða innan lands um hvort eignarréttur haldi. Menn hafa rætt um að jafnvel þyrfti að setja á sérstakt álag hjá bönkum erlendis vegna pólitísks óstöðugleika. Það er án efa ýmislegt annað en Icesave sem hindrar endurreisn íslensks atvinnulífs, kannski fyrst og fremst stefnuleysi ríkisstjórnarinnar.

Við höfum rætt talsvert um gjaldeyrishöftin og ég nefndi áðan að hæstv. forsætisráðherra hefði sagt í óundirbúnum fyrirspurnum fyrr í dag að gjaldeyrishöftin yrðu að fara svo hægt yrði að byggja upp atvinnulífið. En þá spyr ég: Með hvaða hætti á að taka áhættu með því að greiða Icesave ef gjaldeyrishöftin verða tekin burtu?

Ég ætla ekki að eyða löngum tíma í að fjalla um allar þær hrakspár og dómsdagsspádóma sem fram komu hjá stjórnarliðum og ráðherrum í aðdraganda Icesave 1 og 2 og hefur aðeins verið minnst á í Icesave 3. En staðreyndin er hins vegar sú að þegar kannanir fóru að sýna að almenningur mundi hafna Icesave-lögunum tók gengi krónunnar að styrkjast og skuldatryggingarálag Íslands fór að lækka mjög hratt. Ísland hefur síðan farið fram úr hverju landinu á fætur öðru og þykir jafnvel traustari lántaki í dag en t.d. Grikkland, Írland og Portúgal. Það fór meira að segja fram úr Spáni, sem er allnokkurt stærra efnahagskerfi innan Evrópusambandsins og með evru. Í því felst hinn raunverulegi sparnaður sem skiptir öllu máli í landi þar sem skuldsetning er helsta fyrirstaða efnahagslegrar endurreisnar. Það sem skiptir máli í efnahagsmálum er nefnilega að halda skuldunum lágum en ekki hversu mörg hundruð milljörðum er varið í að kaupa sér vini í erlendum ráðuneytum, eins og menn hafa nefnt í ræðum sínum.

Niðurstaðan er því sú að mínu mati að tíminn vinnur með okkur í þessu máli. Mér finnst til að mynda með ólíkindum að við skulum vera að ljúka 2. umr. á meðan við erum enn að bíða eftir niðurstöðu og gögnum frá hv. viðskiptanefnd og hv. efnahags- og skattanefnd. Hvað liggur okkur á að klára málið áður en gögn, ályktanir og álit liggja fyrir? Það hefur sýnt sig að stöðugt hafa komið fram nýjar upplýsingar sem hjálpa okkur við að taka upplýsta afstöðu. Það minnkar áhættuna og skýrir ákveðna áhættuþætti sem við höfum áður talið algerlega ómögulegt að meta. Nokkrir þeirra eru þó óútskýrðir enn þá. Ætli þingið hins vegar að taka málið til sín og samþykkja það með allri þeirri áhættu og óvissu og skorti á upplýsingum sem við höfum staðið frammi fyrir er það framhald á því fúski sem leitt hefur af sér hvert klúðrið á fætur öðru. Það er skynsamlegast að fara varlega og láta tímann vinna með okkur. Það liggur ekkert á, herra forseti.