139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[12:05]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að koma hingað og skýra þennan hlut sem hefur greinilega verið óljós og er kannski eitt af því sem ýtir undir það að við þurfum heldur meiri tíma til að fara yfir þetta mál, að það séu þá allir á nákvæmlega sömu blaðsíðunni hvað það varðar. Einnig hefur verið á það bent að ef neyðarlögin haldi ekki, sem við skulum vona að ekki komi til, geti það svo sem lent á okkur að greiða allan þann stabba af kröfum sem þarna eru. En það má kannski spyrja hæstv. fjármálaráðherra, af því að við erum að skiptast aðeins á skoðunum, hvort hann telji að í hugsanlegri málsókn — ég veit að hann vill ekki fara þá leið — yrði niðurstaðan með eitthvað öðrum hætti, þ.e. að ef við töpuðum málinu, sem mér finnst ólíklegt, yrðum við dæmd til að borga meira en lágmarksinnstæðutryggingarnar 20.887 evrur, hvort hann telji líklegra að við yrðum dæmd til að borga allar kröfurnar. Mér fannst þetta áhugavert. Þetta er umræða sem margir þingmenn hafa tekið og lýsi ég þeirri skoðun minni að það hefði kannski þurft, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal kom inn á, að leggja aðeins mat á það vegna þess að ég tel og margir aðrir að það séu meiri líkur en minni að við vinnum það mál. En hvernig telur hæstv. fjármálaráðherra að við gætum tapað því máli?