139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[12:08]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alltaf vissara að tala varlega þegar menn ræða mögulega óorðin málaferli þar sem ríkið á í hlut og ekki síst fyrir þann sem hér stendur sem væntanlega þarf þá að taka til varna.

Ég vil bara segja það sem mína almennu skoðun að ég er mjög bjartsýnn á það og ég tel að við höfum ærna ástæðu til að ætla að neyðarlögin muni standast fyrir dómstólum. Ég tel að réttur stjórnvalda til slíkra aðgerða eigi að vera hafinn yfir vafa við aðstæður eins og þær sem við stóðum frammi fyrir. Slíkur réttur er mjög ríkur og við höfum ákveðna hughreystingu í því sem þegar liggur fyrir, t.d. frá Eftirlitsstofnun Evrópska efnahagssvæðisins, ESA.

Það kæmi manni mjög á óvart ef svo langt yrði gengið fyrir íslenskum dómstólum, þar sem slíkt mál yrði rekið, að stjórnvöldum hefði ekki borið réttur til að gera eitthvað af því tagi sem óumflýjanlegt var að gera haustið 2008 þó að auðvitað megi deila um einstök atriði innan þeirrar aðgerðar.

Varðandi málaferli að öðru leyti, ef látið er reyna á ábyrgð okkar gagnvart innstæðutryggingunum, þá held ég að best sé að vísa í þau ágætu gögn sem hv. þingmenn hafa aðgang að frá okkar færustu lögfræðingum þar sem þær áhættur og möguleikar eru dregnir fram. Ég ætla ekki að tjá mig um líkur í þeim efnum. Ég bendi á að það er mjög stórt bil þar á milli hvort við yrðum dæmd ábyrg fyrir lágmarkstryggingarfjárhæðinni og engu öðru sem er þá hliðstætt því sem er í samkomulaginu sem hér er undir, hvort við yrðum á grundvelli jafnræðisreglu, og vegna þess að við tryggðum öll innlán innan lands í öllum útibúum innlendra fjármálastofnana, talin ábyrg fyrir öllum innlánum í útibúum þótt þau væru staðsett erlendis, það er stóra áhættan. En það er rétt að benda hv. þingmönnum á að svo fremi sem neyðarlögin standa (Forseti hringir.) og þeim mun hærra sem endurheimtuhlutfallið er þá skiptir þetta minna máli en margir ætla svo fremi að búið eigi að uppistöðu til fyrir öllum þeim kröfum sem dæmdar eru forgangskröfur.