139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[14:34]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég segja að meint bréf Styrmis Gunnarssonar hefur væntanlega borist til hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar (Gripið fram í.) en ekki til mín, þannig að ég er ekki að vísa í það. Það er áhugavert ef hv. þingmaður er farinn að fá póst sem berst til þingmanna Sjálfstæðisflokksins en það hlýtur að eiga sínar skýringar.

Virðulegi forseti. Lunginn af ræðu minni fór í að ræða nýja innstæðutryggingarsjóðinn sem hefur verið til umræðu hér í þinginu í nærri tvö ár. Ég var að vekja athygli á þeim augljósu göllum sem þar eru. Út á það gekk ræðan mín. Ég veit að hv. þm. Höskuldur Þórhallsson er áhugamaður um þessi mál öll og ég hvet hann til að kynna sér það mál vegna þess að við erum komin í þennan vanda út af þessari gölluðu tilskipun Evrópusambandsins. Ef hún var gölluð áður er hún hálfu verri núna. Því miður hafa hæstv. ráðherrar ekki borið hönd fyrir höfuð Íslands og reynt að verja okkur hvað þetta varðar sem vægast sagt hefði verið full þörf fyrir. Við sitjum uppi með frumvarp sem getur komið okkur í gríðarlegan vanda. Það er það sem ég er að vekja athygli hv. fjárlaganefndar á.

Varðandi aðra þá þætti sem hv. þingmaður spurðist fyrir um er svar mitt einfaldlega þetta: Við eigum að skoða alla þá þætti sem mögulegt er en ég treysti hins vegar afskaplega vel hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd. Ég veit að þeir eru búnir að vinna gríðarlega vel í þessu, ekki bara núna heldur frá því að þetta mál byrjaði. Ég veit ekki annað en það hafi átt við í öllum málum en þekki það mál sem hann vísar til (Forseti hringir.) ekki sérstaklega.